Það er allt hægt

25. maí 2019

Edda Katrín Ragnarsdóttir, vöruhönnuður og keramiker, hefur síðastliðin tvö ár unnið náið með myndlistarmanninum Agli Sæbjörnssyni við sköpun listheims tröllanna Ùgh og Bõögâr. Egill var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2017 en í aðdraganda sýningarinnar tóku tröllin tvö yfir vinnustofuna hans í Berlín og eignuðu sér innsetninguna í íslenska skálanum sem bar titilinn „Out of Controll in Venice“ og hlaut mikið lof og athygli. 

Edda Katrín útskrifaðist sem vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og fór síðan á keramikbraut í Myndlistarskólanum í Reykjavík fyrir einskæra tilviljun, að eigin sögn: „Ég heyrði auglýsingu í útvarpinu um silkiþrykknámskeið á vegum skólans og ákvað að skrá mig. Einn morguninn á meðan á námskeiðinu stóð var ég að skoða heimasíðu skólans og áður en ég vissi af var ég búin að sækja um í diplómanám á keramikbrautinni þá um haustið.“ Edda segist ekki hafa haft hugmynd um hvað hún væri að fara út í: „Ég hafði aldrei haft áhuga á keramiki, var frekar með fordóma gagnvart leirnum sem efni, en á fyrsta degi var eins og það kviknaði á einhverri peru hjá mér.“ Aðspurð hvað það sé við leirinn sem heilli hana fram yfir önnur efni svarar Edda að það sé óvissan, hversu óútreiknanlegur og lifandi hann sé. „Það er alveg sama hvort þú gerir allt eftir bókinni, það getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis. Þú veist aldrei hvað tekur á móti þér þegar þú opnar ofninn. Ég gleymi því stundum að ég hafi lært vöruhönnun og kalla mig orðið keramiker. Allt varðandi sköpun lærði ég í vöruhönnunarnáminu en leirinn er orðinn minn miðill. Hvort sem verkin mín flokkast sem  hönnun eða list þá eru þau hluti af minni listrænu rannsókn.“

Edda Katrín Ragnarsdóttir

Ég gleymi því stundum að ég hafi lært vöruhönnun og kalla mig orðið keramiker. Allt varðandi sköpun lærði ég í vöruhönnunarnáminu en leirinn er orðinn minn miðill. Hvort sem verkin mín flokkast sem  hönnun eða list þá eru þau hluti af minni listrænu rannsókn.

Edda Katrín Ragnarsdóttir

Leiðir Eddu, Egils og tröllanna Ùgh og Bõögâr lágu fyrst saman vorið 2016 en þá var Egill staddur í Reykjavík og vann að frumgerðum skartgripa tröllanna sem sýndir voru á sýningunni EGILL SÆBJÖRNSSON: Ùgh & Bõögâr – Jewellery í i8 Gallery í Reykjavík og í Galerie Anhava í Helsinki síðla árs 2017. „Ég fór til Berlínar um sumarið og heimsótti Egil á vinnustofuna hans. Hann sagði mér að hann yrði fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum og ætlaði að fara með tröllin til Feneyja. Ég spurði hvort ég mætti koma til hans í starfsnám og það var ákveðið á staðnum að ég kæmi til Berlínar eftir að ég kláraði námið í keramikdeildinni.“

Á meðan Edda var enn í náminu aðstoðaði hún Egil við nokkur verkefni og kom einnig að gerð skartgripa og fylgihluta fyrir fatalínu sem Eygló Margrét Lárusdótttir fatahönnuður gerði í samstarfi við Egil fyrir opnun íslenska skálans í Feneyjum. „Egill sendi mér skilaboð og bað mig um að gera pínulítið verkefni fyrir þau. Ætlunin væri að vera með tískusýningu á opnuninni og þar á meðal með nokkra skartgripi úr postulíni.“Þá höfðu Egill og Eygló þegar gert frumgerðir sem Edda Katrín tók við. Hún gerði gripina úr postulíni sem hún síðan glerjaði og gyllti á eldhúsborðinu heima hjá sér: „Ég var alla páskana að gera mótin og úti um allan bæ að brenna, held ég hafi notað fjóra mismunandi ofna.“

Eygló SS18 Mynd: Rafael Pinho

Eftir útskrift úr myndlistarskólanum um vorið hélt Edda til Berlínar eins og um hafði verið samið og hóf að vinna með Agli að undirbúningi sýningar hans og tröllanna sem setja átti upp í i8 Gallery þá um haustið. Aðspurð hvernig samstarfinu hafi verið háttað svarar Edda:

„Egill setti rammann í hvert sinn og í þessu tilfelli var hann skartgripasýning. Fyrir hana átti að gera um tuttugu til þrjátíu stykki af hringum, demöntum og hálsmenum og síðan unnum við hvort í sínu lagi að okkar gripum. Ramminn var mjög skýr en innan hans var líka mikið frelsi.“ Við gerð skartgripanna hafi þau brotið nær allar þær reglur sem hún lærði í náminu: „Ég kom inn í samstarfið með þekkingu á vinnslu leirsins og þegar Egill setti fram hugmyndir og spurði mig hvort hægt væri að framkvæma þær svaraði ég alltaf að allt væri hægt, það þyrfti bara að finna réttu leiðirnar.“ Edda segir jafnframt að Ūgh og Bõögâr hafi verið hluti af sköpunarferlinu frá upphafi til enda: „Sama hvar við vorum, í stúdíóinu eða úti að hjóla þá vorum við alltaf að tala um tröllin. Hvað þau væru að gera og hvernig þau myndu gera hlutina sem við vorum að vinna að.“ 

EGILL SÆBJÖRNSSON: Myndir af sýningunni Ùgh & Bõögâr Jewellery. Birt með leyfi listamannsins og i8

Það er alveg sama hvort þú gerir allt eftir bókinni, það getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis.

Edda Katrín Ragnarsdóttir

Þessa stundina er Edda stödd í Kristinehamn í Svíþjóð þar sem hún vinnur að nýjasta verki

Egils, KÄRAHÄR. Titill verksins er afleiða af nafni borgarinnar Kandahar í Afghanistan og stendur fyrir „gott að vera hér“. Verkefnið er hugsað til þriggja ára og því er ætlað að búa til skapandi umhverfi fyrir samfélagið í Kristinehamn en stór hluti íbúa þess eru hælisleitendur. Í bænum hefur Egill sett upp sjálfbæran veitingastað; grænmetið kemur frá samfélagsreknu gróðurhúsi og allur borðbúnaður er gerður á keramikverkstæði staðarins þar sem Edda er með opnar vinnustofur nokkrum sinnum í viku. „Fyrsta daginn mættu tíu manns á vinnustofuna og þriðja daginn hafði fjöldinn þrefaldast. Þetta hefur gengið einstaklega vel og fólkið er hugrakkasta fólk sem ég hef á ævi minni hitt,“ segir Edda en hún mun dvelja í Kristinehamn fram á vor og að því loknu stefna þau Egill á frekara samstarf: „Okkar stærsti draumur er að halda þriðju Ūgh og Bõögâr sýninguna. Ég vil meina að tröllin séu bara rétt að byrja ferð sína um heiminn.“

Viðtalið birtist fyrst í 7 tölublaði HA.

Dagsetning
25. maí 2019
Höfundur
Hera Guðmundsdóttir

Tögg

  • HA
  • Viðtöl
  • HA07
  • Vöruhönnun
  • Viðtal