Þátttaka á hönnunarhátíðum skiptir öllu máli

Fischersund listasamsteypan tók þátt í hönnunarvikunni í Helsinki sem er nýafstaðin. Lilja Birgisdóttir, einn af stofnendum Fischersund, segir að þátttakan hafi gengið glimrandi vel og raunar farið fram úr væntingum. „Við í Fischersund tókum þátt í þremur verkefnum á hátíðinni þar sem við sögðum frá ilmgerð okkar fjölskyldunnar og töfrandi ilmheimi Íslands,“ útskýrir Lilja.
Þrír afar ólíkir viðburðir
Viðburðirnir voru ólíkir en fyrsta daginn opnaði Fischersund innsetningu í nýju showroomi sem heitir House of Contessa með ilmupplifun fyrir gesti sem mæltist vel fyrir. „Sendiráð Íslands í Finnlandi stóð fyrir mjög skemmtilegum umræðum með mér og finnskum hönnuði en við ræddum saman á persónulegum nótum um lífið og listina ásamt því að svara spurningum úr sal,“ segir Lilja en í sendiráðinu var setið í hverju sæti og stemningin góð eftir því. „Þriðji viðburðurinn var fyrirlestrarröð í elstu kirkju Helsinki sem kallast PechaKucha. Þar var japanskt form þar sem allir viðmælendur fengu 6 mínútur til þess að segja frá því sem það brennur fyrir. Það var rosalega skemmtilegt með viðmælendum úr ólíkum geirum samfélagsins; hönnuðum, listamönnum, arkitektum og tónlistarfólki.“




Allt annað að hitta fólk í eigin persónu
Lilja segir að þátttaka á hátíð einsog hönnunarviku Helsinki skipti öllu máli. „Fyrir hátíðina höfðum við engan sýnileika í borginni og þekktum bókstaflega engan. Eftir þessa ferð erum við búin að kynnast svo mikið af frábæru fólki og komin með sterkar tengingar inn í lista- og hönnunarsamfélagið í borginni sem er ómetanlegt. Við finnum hvað er mikilvægt að mæta á staðinn og hitta fólk í eigin persónu miðað við að senda einhverja tölvupósta út í etherinn. Það er allt annað að drekka kaffibolla með fólki og geta smitað þau af ástríðu manns,“ segir Lilja glettin.
Laser fókus á Sequences
Það er ýmislegt spennandi framundan hjá Fischersundi. „Núna erum við með laser fókus á þátttöku okkar í Myndlistartvíæringnum Sequences sem stendur yfir hér á landi frá 10. - 20. október. Við systkinin erum listamenn á mismunandi sviðum og elskum að koma saman og mynda ákveðinn heim þar sem við upphefjum öll skilningarvitin og búum til rými þar sem fólk upplifir ilm, myndlist, hljóð og áferðir,“ segir Lilja.
Opnun Fischersund á Sequences er 10. október n.k. í Kling og Bang galleríinu í Marshallhúsinu úti á Granda. Aðgangur ókeypis og öll velkomin. Þá verður Fischersund með ilmandi tónleika 15. október sem verða auglýstir síðar.