Árið 2023 í hönnun og arkitektúr

21. desember 2023

Árið sem er að líða hefur verið ansi viðburðaríkt hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. 2023 byrjaði með krafti sem gaf svo sannarlega tóninn fyrir ár fullt af fjölbreyttum verkefnum og viðburðum á hinum ýmsu sviðum. 

Hér er stiklað á stóru á því sem bar hæst:

Útlínur framtíðar

Ný stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs leit dagsins ljós í upphafi árs en um er að ræða stefnu til ársins 2030. Leiðir að meginmarkmiðum stefnunnar tengjast fimm áherslusviðum sem nánar er fjallað um í stefnuskjalinu; verðmætasköpun, hagnýtingu hönnunar sem breytingarafls, sjálfbærri innviðauppbyggingu, menntun framsækinna kynslóða og kynningu á íslenskri hönnun og arkitektúr. 

Stefnan var mótuð í samvinnu við fjölda samstarfsaðila, og hag- og fagaðila gegnum Miðstöð hönnunar og arkitektúr þar sem haldnir voru stefnumótandi fundir og byggist innihald stefnunar á þeirri góðu vinnu.

Stefnuskjalið er hannað af Arnar Fells Gunnarssyni og Arnari Inga Viðarssyni.

Stefnumót hringrásar  

Vinnustofan Hringborð Hringrásar um innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði fór fram í Grósku í janúar þar sem hagaðilar í geiranum áttu innihaldsríkt samtal um aðkallandi verkefni og brýna þörf á að hraða breytingum.

Vinnustofan var skipulögð af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Arkitektafélagi Íslands, Eflu og Grænni byggð, í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Reykjavíkurborg og FSRE. 

Um fjörutíu áhrifamiklir aðilar úr allri virðiskeðju byggingariðnaðarins, frá fasteignafélögum, verktökum, verkfræðistofum, arkitektastofum, stofnunum og stjórnvöldum tóku þátt í vinnustofunni. Niðurstaða vinnustofunnar var skýr: Ísland stendur nágrannaþjóðum að baki þegar kemur að innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði og brýn þörf er fyrir breytingar.

Opinn fundur um sama málefni fór fram síðar um daginn í Grósku þar sem gestir fengu innsýn inn þetta mikilvæga samtal ásamt því að líflegar panelumræður fóru fram. 

Í pallborði tóku þátt; Borghildur Sturludóttir, deildarstjóri hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar, Friðjón Sigurðsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Reitum, Halldór Eiríksson, formaður Samark, Hermann Jónasson, forstjóri HMS og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka. Fanney Birna Jónsdóttir var fundarstjóri. 

Verkefnið Hringborg hringrásarinnar er unnið með stuðningi frá Aski Mannvirkjarannsóknarsjóði. 

HönnunarMars 2023

HönnunarMars fór fram í fimmtánda sinn dagana 4 - 8. maí og breiddi úr sér um höfuðborgarsvæðið með um 100 fjölbreyttum og forvitnilegum sýningum og 150 viðburður.

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Hvað nú? þar sem sýningar, þátttakendur og viðburðir endurspegluðu það sem efst var á baugi á sviði hönnunar og arkitektúrs, veittu innsýn inn í nýjar lausnir og hugmyndir og sýndu nýjar leiðir til að takast á við áskoranir samtímans til innblásturs fyrir þátttakendur og gesti.

Skapandi tilraunir, endurvinnsla, nýsköpun, endurnýting, verðmætasköpun og leikur voru rauður þráður í dagskránni þar sem ólíkar hönnunargreinar á borð við arkitektúr, grafíska hönnun, fatahönnun, vöruhönnun og stafræna hönnun vörpuðu ljósi á þá miklu grósku sem á sér stað í hönnun hér á landi.

Sjáðu myndir frá hátíðinni hér - og sjáumst á HönnunarMars 2024 dagana 24-28. apríl - umsóknarfrestur er til 10. janúar næstkomandi. 

DesignTalks 2023

Alþjóðlega ráðstefnan og lykilviðburður HönnunarMars, DesignTalks fór fram fyrir fullu húsi í Hörpu, þann 3. maí. Ráðstefnan leitaði svara við spurningunni Hvað nú? með áhrifamiklum erindum frá fjölbreyttum hópi hönnuða, arkitekta og listamanna sem nálgast núið og framtíðina á skapandi hátt. DesignTalks var streymt í beinni hjá hönnunarmiðlinum Dezeen.


Listrænn stjórnandi DesignTalks 2023 var Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður, framleiðandi var Þura Stína Kristleifsdóttir, kynnir var Guðrún Sóley Gestsdóttir og stjórnandi umræðna var Tom Ravenscroft, ritstjóri hjá Dezeen. 

Hönnunarsjóður

Hönnunarsjóður stækkaði upp í 80 milljónir í byrjun árs 2023 og samhliða því var gerð sú breyting á úthlutunum að almennir styrkir urðu að hámarki 10 milljónir og ferðastyrkir hækkuðu upp í 150 þúsund krónur hver. 

Alls bárust 174 umsóknir um almenna styrki upp á 461 milljónir og 74 ferðastyrkir. Sjóðurinn úthlutaði alls 74,8 milljónum til 46 fjölbreyttra verkefna ásamt 29 ferðastyrkja. 

Fyrri úthlutun

Seinni úthlutun

Opið er fyrir umsóknir í fyrri úthlutun Hönnununarsjóðs 2024 en umsóknarfrestur er til 21. febrúar.

Nýjar áherslur í nýsköpun - Hönnunarsjóður 10 ára

Hönnunarsjóður fagnaði 10 ára starfsafmæli með viðburði í Grósku. Styrkþegar veittu innsýn inn í verkefni sem hafa hlotið styrk í gegnum tíðina, fróðlegur panell var um framtíðarsýn Hönnunarsjóðs og styrkjaumhverfið og að lokum fór fram síðari úthlutun Hönnunarsjóðs þar sem 25 verkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs hlutu styrk.

Fjallað var um þróun í nýsköpun og nýjar áherslur tengdar samfélagslegum breytingum og umhverfismálum ásamt því að rædd var framtíðarsýn sjóðsins og tengsl hans við aðra sjóði og tækifæri í stuðnings- og styrkjaumhverfi fyrir verkefni á þessu sviði.

Ársfundur Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs

Sumargleði og ársfundur Miðstöðvarinnar fór fram í Grósku í júlí. Fjölmennt og góðmennt var á fundinum sem svo leystist upp í almenna gleði. 

Gestir fengu innsýn inn í fjölbreytt verkefni sem vöktu athygli á nýafstöðnum og velheppnuðum HönnunarMars og sömuleiðis yfirsýn yfir árið sem leið hjá Miðstöðinni. Þá kom Lilja D. Alfreðsdóttir hélt ánægjulegt erindi um bjarta tíma framundan. 

Arkitektafélag Íslands og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs á UIA2023

Arkitektafélag Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við norrænu arkitektafélögin, Sustainnordic og Nordic Sustainable Construction (Norræna ráðherranefndin) stóðu saman að Norræna skálanum á arkitektaráðstefnunni UIA2023 sem fram fór 2.-6. júlí.

Norræni skálinn var tvískiptur, annars voru haldnar tvær sýningar á skjáum við skálinn og hinsvegar fóru fram samtöl, umræður og samtöl í þema ráðstefnunnar, að vinna að framtíð sem er bæði félagslega sjálfbær og umhverfislega endurnýjanleg.

Hönnunarverðlaun Íslands 2023 

Það var mikið um dýrðir í Grósku þann 9. nóvember þegar Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent með pompi og pragt. Dagurinn hófst á því að gestir fengu góða innsýn inn í þau níu framúrskarandi og fjölbreyttu verkefni sem tilnefnd voru til verðlaunanna í ár í þremur mismunandi flokkum. Í kjölfarið var svo verðlaunaafhending með tilheyrandi fögnuði.

Það voru þau Sunnefa Gunnarsdóttir, arkitekt og Logi Pedro, vöruhönnuður sem stýrðu samtali við tilnefnda og sáu svo um að kynna verðlaunaafhendinguna sem fór fram fyrir fullum sal.

Sigurvegara verðlaunanna í ár voru Angústúra bókaforlag sem hlaut viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun, Sigrún Guðjónsdóttir „Rúna“, leirlistakona sem er Heiðursverðlaunahafi ársins, Loftpúðinn eftir Fléttu fyrir Fólk Reykjavík er Vara ársins, Edda, hús íslenskunnar eftir Hornsteinar arkitekta er Staður ársins og Pítsastund eftir Fléttu og Ýrúrarí er Verk ársins.

Hönnunarverðlaun Íslands fóru fram í tíunda sinn í ár að því tilefni voru verðlaunin stækkuð og veitt í þremur flokkum - Vara - Staður - Verk.

Hæ/Hi - Reykjavík & Seattle

Sýningin Saman/Together, Hæ/Hi - Designing Friendship opnaði í Reykjavík og Seattle á árinu. Um er að samstarfsverkefni hönnuða og hönnunarstúdíóa frá Reykjavík og Seattle og er þetta annað árið í röð sem verkefnið er sýnt. Sýningin var frumsýnd í Ásmundarsal á HönnunarMars í vor og svo Homestead gallerí í Seattle í tengslum við Taste of Iceland í borginni.

Á sýningunni er lögð áhersla á hluti og upplifun sem tengja okkur saman og hvetja til samstarfs, leiks og ánægjulegrar afslappaðrar samveru.

Hæ/Hi er vettvangur fyrir skapandi samtal og samstarf hönnunarstúdíóa frá Reykjavík og Seattle sem hófst 2019.

Þrjár samkeppnir um sýningar í þjóðgörðum Íslands

Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður í samvinnu við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Ríkiskaup efndi til þriggja samkeppna um sýningar í þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Hellissandi, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri og gestastofu Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs á Skútustöðum við Mývatn.

Erum við að kaupa til að henda? 

66°Norður í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Festu - miðstöð um sjálfbærni stóðu fyrir viðburðinum Erum við að kaupa til að henda? í Grósku. 

Markmiðið með viðburðinum var að fræða og ræða neikvæð áhrif ofneyslu og offramleiðslu þar sem sérfræðingar og hönnuðir stigu á stokk ásamt áhugaverðum pallborðsumræðum.

Hönnunarlaun 2024

Úthlutunarnefndir Launasjóðs listamanna úthlutuðu 50 mánuðum til 11 hönnuða. 

Alls bárust 49 umsóknir og sótt um 384 mánuði. Anita Hirlekar, Anna María Bogadóttir og Jón Helgi Hólmgeirsson eru meðal þeirra hönnuða sem hljóta starfslaun hönnuða árið 2024.

Þetta er aðeins brot af því sem var um að vera á árinu en allar fréttir má finna hér á heimasíðu okkar.

Gleðilegt ár frá stjórn og starfsfólki Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs - hlökkum til spennandi 2024 !

Dagsetning
21. desember 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fagfélög