Dýpi tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025

Dýpi er málning sem gerð er úr kalkþörungum úr Arnarfirði á Vestfjöðum. Málningin, sem er umhverfisvæn, plastlaus og andar einstaklega vel, er þróuð af Sirrý Ágústsdóttur frumkvöðli og Árnýju Þórarinsdóttur arkitekt. Dýpi er tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025 í flokknum verk.
Dýpi er frábært dæmi um hvernig nýta má náttúrulegt hráefni sem fellur til í miklu magni með nýskapandi hætti. Kalkþörungar í sjó gegna mikilvægu hlutverki því þeir hreinsa sjóinn og sporna við súrnun hans. Kalkþörungar hafa vaxið í gífurlegu magni í Arnarfiriði og á næstu árum þarf að grisja um 2,5 milljón fm3 úr firðinum til þess að nýir þörungar fái þrifist. Kalkþörungarnir eru takmörkuð auðlind og þess verður vel gætt að því að ganga ekki nærri náttúrunni við nýtingu þeirra.
Kalkþörungur er magnað náttúrulegt fyrirbæri og til margra hluta nytsamlegur. Fólk tekur hann inn sem fæðubótarefni, hann er notaður í snyrtivörur og býr líka yfir ótrúlegum eiginleikum sem henta mjög vel í málningu. Í honum verður til mikil þéttni og efnahvörf sem mynda sterka og lífræna málningu sem inniheldur ekkert plast. Kalkþörungur er basískur og með hátt pH-gildi sem veldur því að engin baktería eða mygla lifir í honum en í honum verður til mikil öndun. Málningin ætti því að henta einstaklega vel til að mála byggingar hér á landi og hjálpa til í baráttu gegn myglu í húsum.
Fyrsta litapalletta Dýpis er unnin út frá jarðlitum í náttúrunni við og í kringum sjóinn í Arnarfirði. Eins eru nöfn litanna með sterka tengingu við hafið og vísa í náttúruna. Teyminu tekst að skapa fágaða samsetningu lita og stemningu á sérstaklega fallegan hátt. Litarefnin eru einnig þróuð með náttúrulegum hætti og unnin úr plöntum, steinum eða skordýrum. Dýpi er gott dæmi um vöru með hringrásarhugsun og er í senn góð fyrir náttúruna, umhverfið og andrúmsloftið.
Dýpi er verkefni þróað af Sirrý Ágústsdóttur frumkvöðli og Árnýju Þórarinsdóttur arkitekt. Hugmyndin á uppruna sinn á Vestfjörðum á Íslandi. Dýpi hófst sem frumkvöðlaverkefni en er nú umhverfisvæn kalkmálning og fyrsta íslenska kalmálningin sem er unnin úr vottuðu sjávarkalki.



Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2025 fer fram í Grósku þann 6. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í tólfta sinn í ár og eru veitt í þremur flokkum: Vara // Staður // Verk. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, með stuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Íslandsstofu, Grósku, Vísindagörðum Háskóla Íslands og Bláa Lóninu.


