Lavaforming tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2025

Lavaforming er framsækin rannsókn og sýn s.ap arkitekta þar sem ógnvekjandi náttúruöflum er breytt í verðmæt og sjálfbær byggingarefni. Lavaforming er tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2025 í flokknum verk.
Með því að nýta sér jarðfræðilega sérstöðu Íslands og beina sjónum að möguleikum hrauns sem byggingarefnis varpar verkefnið Lavaforming ljósi á hvernig hægt er að breyta staðbundinni ógn í tækifæri. Þannig eru kynntar hugmyndir um hvernig megi nota rennandi hraun sem byggingarefni í framtíðarborgum. Verkefnið er gott dæmi um íslenskt hugvit, sköpunargáfu og alþjóðlega hugsun í þágu sjálfbærrar framtíðar.
Í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025 er Lavaforming kynnt sem framtíðarsýn þar sem arkitektúr er afl nýsköpunar, hugrekkis og skapandi hugsunar. Þar sameinast efnistilraunir á hrauni og frásögn sem teygir sig fram til ársins 2150, þar sem mannkynið hefur lært að móta og byggja borgir með efnum beint úr iðrum jarðar. Þetta er róttæk hugmynd og tilgáta um það hvernig arkitektúr getur endurskilgreint samband manns og náttúru.
Í Lavaforming sýningunni eru vídjóverk, teikningar, stafræn framsetning upplýsinga, tölvuleikur, kvikmynd og hrauninnsetning. Sagan er sögð með ljóðrænum hætti sem framtíðarminning en Andri Snær Magnason, rithöfundur mótaði sagnaheim sýningarinnar.
Ísland tók þátt í fyrsta skipti á arkitektatvíæringum í Feneyjum vorið 2025 með sýninguna Lavaforming og steig þannig stórt skref inn á alþjóðlega sviðið með hugmynd og tilgátu sem sameinar vísindalega tilraun og ljóðræna framtíðarsýn.
s. ap arkitektar hafa með Lavaforming verkefninu skapað þverfaglega rannsóknarstofu með áherslu á tilgátuverkefni framtíðarinnar. Í Lavforming teyminu eru Arnhildur Pálmadóttir, Arnar Skarphéðinsson, Björg Skarphéðinsdóttir, Sukanya Mukherjee, Jack Armitage og Andri Snær Magnason. Um grafíska hönnun sýningarinnar í Feneyjum sá hönnunarstofan Studio Studio en Markús Þór Andrésson, nú safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, var ráðgjafi sýningarinnar. s.ap arkitektar leggja áherslu á endurnýtingu efna og nýsköpun við hönnun mannvirkja og borgarskipulags og ýta þannig á breytingar á mengandi kerfum.






Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2025 fer fram í Grósku þann 6. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í tólfta sinn í ár og eru veitt í þremur flokkum: Vara // Staður // Verk. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, með stuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Íslandsstofu, Grósku, Vísindagörðum Háskóla Íslands og Bláa Lóninu.

