Félagsbústaðir á Sjómannaskólareit tilnefndir til Hönnunarverðlauna Íslands 2025
Félagsbústaðir á Sjómannaskólareit eftir s.ap arkitekta er einstakt verk í íslenskri mannvirkjagerð þar sem félagslegt hlutverk, fagurfræði og metnaðarfull sjálfbærni eru ofin saman í heildstæða hönnun. Félagsbústaðir eru tilnefndir til Hönnunarverðlauna Íslands 2025 í flokknum staður.
Félagsbústaðir standa við Háteigsveg 59 en um er að ræða 500 fermetra búsetukjarna á þremur hæðum með átta íbúðum sem hannaðar eru sérstaklega með þarfir fatlaðs fólks að leiðarljósi en að auki er ein íbúð ætluð starfsfólki. Íbúðirnar eru bjartar, notalegar og aðgengilegar. Við hönnun hússins var haft að leiðarljósi að skapa reisn, öryggi og frelsi í daglegu lífi íbúanna.
Félagsbústaðir marka tímamót því þetta er fyrsta byggingin á Íslandi þar sem kolefnisspor er kerfisbundið lækkað samhliða hönnunarferlinu. Með markvissri endurnýtingu efna tókst að lækka kolefnisspor um 53 prósent frá viðmiðunarhúsi sem er langt umfram 30 prósenta markmið í vegvísi um vistvænni mannvirkjagerð til 2030. Til að ná þessum markmiðum þurfti að kafa djúpt í þá ferla sem vanalega er fylgt í íslenskum byggingariðnaði til að finna tækifæri til úrbóta.
Óþarfa klæðningu og málningu var sleppt og val og þróun á steinsteypu og burðarvirki miðaði að því að lágmarka kolefnisspor. Í byggingunni er að finna frumlega hringrásarhugsun, allt frá timburklæðningu úr afgangsviði, endurnýtt parket úr íþróttahöll, steinflísar úr afgangsefnum, hurðir úr endurvinnslu og gluggar sem átti að farga. Nýsköpun í samstarfi við BM Vallá sýndi fram á raunhæfa leið til að draga enn frekar úr notkun sements.
Hönnun byggingarinnar tekur líka mið af staðnum sem hún stendur á. Rask á nánasta umhverfi var lágmarkað og jarðefni á staðnum nýtt. Kostnaður er sambærilegur hefðbundinni byggingu sem staðfestir að metnaðarfull markmið um sjálfbærni þýða ekki aukningu á heildarkostnaði ef hugað er að vel að ferlum og efnisvali tímanlega. Verkefnið byggir á opnu, þverfaglegu samstarfi Félagsbústaða, hönnuða, verktaka og HMS og í því felst lærdómur sem hægt er að skala fyrir mannvirkjagerð á Íslandi til framtíðar.
Hönnunarvinnan sem Arnhildur Pálmadóttir leiddi er allt í senn falleg, siðferðilega sterk og sameinar notendamiðaðan arkitektúr og mælanleg loftslagsáhrif. Háteigsvegur 59 er sannfærandi vegvísir fyrir arkitektúr á Íslandi, þar sem samfélagslega ábyrg, nýsköpun og endurnýting efna stýra ferðinni.
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt hjá s.ap arkitektum leiddi vinnuna við hönnun hússins en hún hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandsráðs 2024. S.ap arkitektar leggja áherslu á endurnýtingu efna og nýsköpun við hönnun mannvirkja og borgarskipulags og ýta þannig á breytingar á mengandi kerfum. S.ap arkitektar vinna þverfaglega og byggja ákvarðanir á vistferilsgreiningum samhliða hönnun auk hringrásarhugsunar og leitast þannig við að skapa tækifæri til sjálfbærari lífsstíls.





Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2025 fer fram í Grósku þann 6. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2025 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, með stuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Íslandsstofu, Grósku, Vísindagörðum Háskóla Íslands og Bláa Lóninu.