FÉ tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025

FÉ er haust- og vetrarlína RANRA 2025, eftir Arnar Má Jónsson og Luke Stevens. FÉ er fatalína þar sem íslensk ull gegnir lykilhlutverki og handverk og nýsköpun mætast í nýjum efnum og fjölbreyttri efnisnotkun. FÉ fatalína er tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025 í flokknum vara.
Fatalínan FÉ sækir innblástur í hráa fegurð Íslands, handverk, fornar aðferðir og íslenskt hráefni. FÉ hyllir seiglu, úthald og kyrrlátan styrk íslensks lífsstíls. Fatalínan er til fyrirmyndar um heildstæða línu þar sem efnisnotkun, framleiðsluferli og hönnun er gefinn góður tími til að skapa einstakar og vandaðar flíkur sem endast. Í fatalínunni eru fjölbreytilegar flíkur, jakkar af ýmsum gerðum, peysur, bolir, vesti, skyrtur, buxur og fylgihlutir. Efnin og flíkurnar eru ýmist framleidd á Íslandi og Ítalíu.
Í FÉ eru eiginleikar íslenskrar ullar kannaðir og birtist hún í hinum ýmsu formum og ólíkum útfærslum; prjóni, þæfingu, vefnaði, gæruskinnum sem og í blöndu með öðrum efnum. Í hönnun RANRA er lögð mikil áhersla á gæði og vandað til verka í hvívetna. Litapallettan er lipurlega samsett og endurspeglar samspil náttúrunnar í hlýjum og köldum tónum. RANRA tekst á einstakan hátt að skapa flíkur sem eru í senn hátækni útivistarfatnaður en halda einnig í rómantík hefða handverksins.
RANRA sérhæfir sig í tískufatnaði sem hannaður er með bæði náttúru og borgarumhverfi í huga. Mikil áhersla er lögð á náið samstarf við framleiðendur og hönnuðirnir leggja sig fram við að þenja mörkin og nýta hráefni í þaula. Í hönnun sinni tvinnar RANRA saman með listilegum hætti menningarsögu, umhyggju fyrir umhverfinu og nýsköpun. RANRA er til fyrirmyndar fyrir fagsamfélagið með rannsóknum sínum og úrvinnslu á þeim hráefnum sem tekin eru fyrir hverju sinni. Samspil gamalla hefða, nýsköpunar og skilningur á efniviðnum endurspeglast í fáguðum flíkum sem bera sterk höfundareinkenni.
RANRA er hönnunarstúdíó Arnars Más Jónssonar og Luke Stevens en þeir starfa hvor tveggja í Reykjavík og London. RANRA var stofnað árið 2019 og stúdíóið er byggt upp með samstarf og hönnun að leiðarljósi. Stúdíóið vinnur að fjölbreyttum verkefnum, vöru- og textílþróun, vöruhönnun og framleiðslu.






Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2025 fer fram í Grósku þann 6. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í tólfta sinn í ár og eru veitt í þremur flokkum: Vara // Staður // Verk. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, með stuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Íslandsstofu, Grósku, Vísindagörðum Háskóla Íslands og Bláa Lóninu.