Íslensk hönnun lýsir upp borgina

Íslensk hönnun lýsir upp höfuðborgarsvæðið fimmta árið í röð vikuna 16. - 22. október þar sem nýstárleg, fjölbreytt og litrík íslensk hönnun birtist og tekur yfir ljósaskilti í heila viku.
Markmiðið átaksins er að auka sýnileika, vitund og virðingu fyrir íslenskri hönnun, en um 50 ólíkar hönnunarvörur og verk birtast á ljósaskiltum um höfuðborgarsvæðið í heila viku og sýna gæði og fjölbreytileika íslenskrar hönnunar.
Þetta er átak sem virkjar breiðan hóp hönnuða, framleiðanda og fyrirtækja og eykur slagkraft og sýnir umfang og fjölbreytileika íslenskrar hönnunar, hvort sem um er að ræða fatahönnun, húsgögn, skart, keramik, grafíska hönnun eða hönnun stoðtækja og véla.
Einkennið er hannað af Antoni Jónasi Illugasyni og Simoni Viðarssyni hjá AJ–S.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Billboard, sem stendur að átakinu en Eyjólfur Pálsson í Epal, átti frumkvæðið að átakinu árið 2021. Átakið hefur vakið mikla athygli meðal almennings, í fjölmiðlum og ánægju meðal þátttakenda í gegnum árin.
Fylgist með á ferð um borgina í vikunni!










