Oase tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025

Oase eru vatnsílát hönnuð af Johanna Seelemann vöruhönnuði fyrir MAKK safnið í Köln en form ílátanna, sem eru úr terracotta leir, eru sótt til eldsneytistanka. Oase vatnsílátin eru tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025 í flokknum vara.
Oase eru vatnsílát sem er ætlað það hlutverk að vökva trjágróður í borgum og einnig hefðbundnir vasar sem er ætlað að geyma vatn. Hönnun Oase felur í sér nákvæmt ferli þar sem leirinn er brenndur við mismunandi hitastig til að ná fram ólíkri virkni. Terracotta vasarnir eru innblásnir af fornri tækni þar sem leirílát voru fyllt með vatni og grafin í jörðina, nálægt rótum trjáa til að vökva þau. Jarðleirinn er gerður gegndræpur og losar vatnið smám saman til róta trjánna. Í þessari aðferð er notað minna vatnsmagn en með hefðbundinni vökvun.
Oase eða vin þýðir frjósamt land í eyðimörk þar sem góð lífsskilyrði eru til staðar fyrir dýr og plöntur. Seeleman sýnir með hönnun vatnsílátanna hvernig hægt er að nýta fornar aðferðir og skapa nýstárlegar og umhverfisvænar lausnir sem geta m.a. orðið mikilvægar fyrir gróður í borgum. Hönnun ílátanna er áhrifarík með umhverfislegt gild sem getur bætt lífsskilyrði plantna við götur í borgum sem annars lifa styttra en tré í görðum.
Seelemann nálgast hönnunina með nýstárlegum hætti sem vekur okkur hin til umhugsunar um vökvun gróðurs í borgum. Hagnýtir eiginleikar ílátanna eru ótvíræðir fyrir tré í borgum, en þeir sóma sér líka afar vel á hvaða heimili sem er. Form ílátanna kemur skemmtilega á óvart en þau eru innblásin af ílátum sem venjulega eru fjöldaframleidd í mótum, til dæmis stálbrúsar fyrir eldsneyti og sökklar fyrir merkingar í vegaframkvæmdum.
Johanna Seelemann lauk BA prófi í vöruhönnun frá LHÍ og meistaragráðu frá Design Academy Eindhoven. Hún rekur Studio Johanna Seelemann sem var stofnað árið 2020 og vinnur bæði á Íslandi og í Þýskalandi. Þar vinnur hún að fjölbreyttri hönnun, allt frá vöruhönnun að rannsóknardrifnum innsetningum þar sem hún kannar venjulega hluti og efni í umhverfi okkar í daglegu lífi og samhengi þeirra. Hönnun hennar hefur verið sýnd í þekktum söfnum víða um heim.






Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2025 fer fram í Grósku þann 6. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2025 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, með stuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Íslandsstofu, Grósku, Vísindagörðum Háskóla Íslands og Bláa Lóninu.