Elliðaárstöð tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025

Elliðaárstöð er nýr áfangastaður með ólíkum rýmum og fjölbreytilegri upplifun í Elliðaárdal, hönnuð af Tertu þverfaglegu hönnunarteymi í samstarfi við Orkuveituna. Elliðaárstöð er tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025 í flokknum staður.
Elliðaárstöð hefur verið endurhönnuð sem spennandi áfangastaður með almenningsrýmum, gestastofu og veitingastað. Svæðið iðar nú af lífi árið um kring en var áður afvikið iðnaðarsvæði. Með endurhönnun á svæðinu hefur gömlum byggingum verið gefið nýtt hlutverk. Útisvæðið fléttast fallega saman við starfsemina með einstöku leiksvæði, viðburðasvæðum, gönguleiðum og innsetningum.
Svæðið er hannað með fræðslu, samveru, útiveru og leik í huga. Þar má fræðast um sögu staðarins, orkuna í náttúrunni og veiturnar, jafnt úti sem inni. Í Elliðaárstöð má hanga, sulla, slaka á, hitta vini, sækja viðburði en þar er líka tekið á móti fjölda skólahópa. Alla þessa þætti þurfti hönnunarteymið að hafa í huga við hönnun og útfærslu á staðnum auk samstarfs við ólíka aðila. Hönnunarhugsun, sem tekur mið af stóra samhenginu, skín í gegn ásamt nákvæmri og vandaðri útfærslu smáatriða.
Í hönnun staðarins er lagt upp með að dylja hvergi afnot manneskjunnar af auðlindum heldur þvert á móti undirstrika jákvætt samlíf manns og náttúru. Áhersla er lögð á að nýta það sem fyrir var á svæðinu til fulls og sækja innblástur í sögu dalsins. Hlusta á staðinn og vinna þaðan.
Við endurnýjun húsanna var leitað í uppruna þeirra varðandi efnisnotkun, innréttingar og fyrirkomulag. Ummerki gamalla veggja eru sýnileg og síðari tíma breytingar fjarlægðar þar sem við átti. Efniviður sem féll til var endurnýttur í ný gólf eða yfirborðsefni og saga húsanna gegnum árin gerð læsileg sem tekst sérstaklega vel þar sem lagnir inni í veggjum og undir götum verða sýnilegar.
Rafstöðin í Elliðaárdal var gangsett árið 1921 og umbylti lífsgæðum Reykvíkinga. Rafstöðvarbyggingin sem er einstaklega fögur og byggð í anda orkuvera á Norðurlöndunum var hönnuð af verkfræðingunum Jóni Þorláksyni, Guðmundi Hlíðdal og Aage Broagers-Christensen. Spennustöðin sem er frá 1930 var hönnuð af Sigurði Guðmundssyni, arkitekt.
Í hönnunarteyminu Tertu eru Ármann Agnarsson, grafískur hönnuður, Brynhildur Pálsdóttir, vöruhönnuður og Eva Huld Friðriksdóttir og Magnea Guðmundsdóttir arkitektar á Teiknistofunni Stiku. Ráðgjafar Tertu við verkefnið eru Hnit verkfræðistofa, Landslag, Ljósark, Liska og Minjastofnun. Auk þess eru samstarfsaðilar Tertu, Birta Fróðadóttir, arkitekt, Kristín María Sigþórsdóttir, vöruhönnuður, Helgi Páll Melsted, grafískur hönnuður og Atli Bollason, listamaður.






Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2025 fer fram í Grósku þann 6. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í tólfta sinn í ár og eru veitt í þremur flokkum: Vara // Staður // Verk. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, með stuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Íslandsstofu, Grósku, Vísindagörðum Háskóla Íslands og Bláa Lóninu.