„Fyrir mér er hönnun svolítið eins og skáldskapur“

„Í mínu lífi hafa hlutir stundum tilhneigingu til að þróast í óvæntar áttir og það er eitthvað sem er kannski auðveldara að sjá og túlka eftir á,“ segir Bergþóra Guðnadóttur stofnandi Farmers Market en hún er textílmenntuð. „Draumurinn var ekki endilega að verða fatahönnuður,“ segir hún brosandi en bætir við að horfi hún í baksýnisspegilinn sé nú eitt og annað sem hafi raðast þannig upp að sú varð einmitt raunin. Farmers Market fagnar 20 ára starfsafmæli í ár og hefur verið rekið af Bergþóru og eiginmanni hennar Jóel Pálssyni tónlistarmanni frá upphafi og vaxið, dafnað og margfaldast í veltu á þessum tveimur áratugum. Bergþóra er hönnuður í fókus.
Landeyjar og Kaupmannahöfn mætast
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á listum bæði sjónlistum, tónlist og bókmenntum. Ég fæ líka mjög mikið út úr því að velta fyrir mér hvaðan við komum og hvaða áhrif það hefur á það sem maður gerir. Á DesignTalks í vor fórum við Jóel yfir upphafið og ræturnar okkar og hvernig það hefur mótað okkur. Uppruni foreldra minna er mjög ólíkur og áhugaverður. Pabbi er fæddur á sveitabæ á Krossi í Landeyjum þar sem hann bjó með foreldrum sínum, ömmu og afa. Þetta var gamaldags íslenskur sveitabær án nútíma þæginda eins og t.d. klósetts innandyra og þegar pabbi fæddist var ekki rafmagn á bænum. Þetta var harðduglegt fólk sem maður myndi í dag sennilega flokka sem frekar fátæk, en pabbi minnist lífsins á Krossi með mikilli hlýju og gleði,“ segir Bergþóra. Móðir hennar kemur úr allt annarri átt. „Hún er fædd í Kaupmannahöfn, hálfdönsk og var sín fyrstu ár líka að hluta til hjá ömmu sinni og afa en þau ráku veitingahús í borginni. Hjá þeim var ekki borðað nema með silfurhnífapörum og pressuðum servíettum. Sem sagt, algjörar andstæður en kreatív orka á báðum stöðum, sem móta mig klárlega í æsku. Þannig að í mér er bæði sveit og borg,“ útskýrir hún. Bergþóra er svo sjálf alin upp í nýju hverfi í Árbænum innan um steypu, nýbyggingar og húsagrunna.




Farmers Market sjálfsævisöguleg skáldsaga
„Fyrir mér er hönnun dálítið eins og skáldskapur. Hönnuður er alltaf að búa til sögur og plott og vinna svo ofan á það. Farmers Market er þar engin undantekning og er einhvers konar sjálfsævisöguleg skáldsaga. Við notum ræturnar okkar sem innblástur fyrir merkið en jafnframt sækjum við í hefðir og sögur þjóðanna í kringum okkur hér á norðurslóðum eins og Grænland, Skandinavíu og sveitarómantíkina frá Bretlandseyjum. Við erum svo stöðugt að bæta við nýjum sögum og köflum til þess að skapa þennan heim okkar,“ útskýrir hún en óhætt er að segja að Farmers Market hafi einmitt tekist sérstaklega vel að búa til sterkt myndmál og heim.
En hvernig týpa er Bergþóra? „Ég er klárlega mix af sveit og borg og svo elska ég bara allskonar bræðing eða fusion hvort sem það er í hönnun, matargerð eða tónlist. Kúltúr og stemning er mér að skapi. Já, ætli ég sé ekki bara nokkurs konar fusion pía?“

Árin hjá 66° ígildi framhaldsnáms
Bergþóra útskrifaðist árið 1999 frá textíldeild MHÍ, undanfara LHÍ. Námið innihélt bæði hönnun og myndlist með áherslu á textíl. „Ég hefði alveg getað lent hvoru megin sem er og hafði mikinn áhuga bæði á textílhönnun og myndlist. Einn af áhugaverðari kúrsum í mínu námi var hjá textílverkfræðingi sem hafði töluverð áhrif á mitt val. Þannig að ég sem sagt valdi hönnunina. Ég var byrjuð að vinna sjálfstætt undir eigin nafni þegar mér bauðst vinna sem hönnuður hjá 66° Norður. Ég var þeirra aðalhönnuður í 5 ár og svo í hlutastarfi fyrstu tvö árin eftir að ég stofnaði Farmers Market. Það má segja að árin hjá 66° hafi verið ígildi framhaldsnáms fyrir mig því þar lærði ég mikið um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig i alvöru textílframleiðslu og rekstri. Þar var ég líka að búa til sögu og þurfti að setja mig inn í allskonar nýjar kringumstæður og hanna útivistarfatnað fyrir bæði fullorðna og börn til að lifa af á Íslandi þar sem við erum úti í hvaða veðri og vindum sem er,“ segir hún. Á þessum tíma hannaði Bergþóra líka fatnað fyrir bæði björgunarsveitir og lögreglu.




Dúnúlpan sem sló í gegn
Bergþóra gerði margar þekktar flíkur fyrir 66° en hún fékk t.d. í gegn að gera hliðarlínu sem var kölluð Icelandic Living. „Hluti af þeirri línu var til dæmis dúnúlpa fyrir íslenskar aðstæður. Þegar ég var að alast upp í Árbænum og gekk í skólann í hefðbundinni dúnúlpu var hún ansi fljót að bæði blotna í gegn og frjósa. Þessi sem ég hannaði var alveg vatnsheld sem þýðir að efnið þarf að vera klætt að innan með vatnsheldri filmu og þar að auki þurfa allir saumar að vera sérstaklega meðhöndlaðir til að halda vatni, enda langaði mig að gera útivistarfatnað inn í okkar séríslensku aðstæður.“ Dúnúlpan Þórsmörk rauk út og er án efa ein af þekktari flíkum frá útivistarmerkinu. „Að auki auki hannaði ég m.a. prjónaðann vindheldan útivistarjakka sem heitir Vindur og ullarflíslínuna Kaldi sem einnig slógu rækilega í gegn og eru auk úlpunnar góðu enn í línu fyrirtækisins.“


Farmers Market andsvar við 2007
Talið berst að uppgangsárin fyrir hrun hér á landi sem voru dálítið sérstök að mati Bergþóru. „Allt átti að verða glóbal og stórt og það var enginn áhugi á sjálfbærni eða vottur á umhverfisvitund. Það var bara svaka partí, veislur á hverjum degi og allt úr plasti. Eins og margir listamenn og fólk sem vinnur í skapandi greinum hef ég þörf fyrir að búa til einhverskonar andsvar við ríkjandi ástandi og þá kom upp sú hugmynd hjá okkur hjónum að fara af stað með vörumerki sem við gætum unnið að saman. Okkur langaði að fara nær rótunum og nota sem mest náttúruleg hráefni. Við vorum lengi að undirbúa þetta en upp úr þessum jarðvegi spratt Farmers Market,“ útskýrir Bergþóra.
Að halda úti fatamerki á Íslandi á sömu kennitölu í 20 ár er afrek út af fyrir sig. Hvernig hafið þið eiginlega farið að því? „Góð spurning,“ segir Bergþóra hlæjandi. „Við Jóel höfum alltaf unnið sem einn maður og göngum í öll störf, sérstaklega til að byrja með. Eitt mikilvægt atriði í okkar vörumerki er að við ákváðum frá upphafi að vera ekki með árstíðarbundnar línur heldur bætum við ofan á þann grunn sem við erum með, breytum kannski litum eða efnum en umturnum ekki línunni eins og bransinn hefur almennt gengið út á. Það þykir í raun sjálfsagt að gera 2-8 fatalínur á ári sem fara svo á útsölur þegar tímabilið er búið og næsta lína dettur í hús. Þetta hefur verið áskorun en líka algjör lukka. Það hljómar kannski skringilega en ég er ekki sérstaklega nýjungagjörn, í raun er ég frekar andstæðan. Ef ég er ánægð með eitthvað get ég lifað með því mjög lengi.“ Gott og vel, en að vinna með maka allan liðlangan daginn og búa með honum, verður það ekkert óþolandi? „Við hugsum aldrei um það nema þegar við erum spurð! Nei, þetta er eins og að vinna með sínum besta vini og ef það kemur upp ágreiningur þá þarf bara að klára hann fyrir kvöldmat. Svoleiðis er okkar líf!“


Sjálfbærni samofið dna fyrirtækisins
Sjálfbærnihugsunin hefur verið hluti af DNA Farmers Market frá upphafi en væntanlega hafið þið synt á móti straumnum með þá stefnu fyrir 20 árum, eða hvað? „Jú, fyrst var dálítið flókið að útskýra þetta fyrir fólki og við stöðugt spurð um nýjar línur. En staðan er dáldið önnur í dag, nú er fólk auðvitað miklu opnara fyrir þessum hugmyndum og hjá yngri kynslóðum er þesskonar hugsun sennilega algengari en hitt. Ég hef líka á tilfinningunni að bransinn sé að einhverju leyti að vakna og á hægfara leið að meira jafnvægi þó að það sé auðvitað langt í land.“
Skemmtilegt fólk og náttúra nauðsyn
Á hvaða stað er tvítuga fyrirtækið núna? „Rosalega góðum! Við rekum tvær verslanir sjálf þar sem við getum kynnt alla okkar vörulínu sem okkur finnst bara fullkomið auk þess sem við erum nokkuð marga endursöluaðila og erum með um 20 manns í fastri vinnu auk verktaka. Á Laugaveginum myndi ég segja að ferðamenn séu um helmingur viðskiptavina en ívið fleiri heimamenn sækja verslun okkar úti á Granda. Núna má segja að við séum að leggja drög að næstu árum og þar er margt sem kemur til greina af því að við erum komin með sterkan grunn til að byggja á,“ segir Bergþóra sem segist halda sér ferskri og á tánum með að vera í tengslum við skemmtilegt fólk og náttúru en „það er sem betur fer nóg af báðu Íslandi!“
Kaupmannsferill Bergþóru á Laugavegi hófst 1999 þegar hún rak litla verslun í bakhúsi með Guðbjörgu Kristínu Ingvarsdóttur gullsmið í Aurum. „Það hafa orðið stórkostlegar breytingar á miðbæ Reykjavíkur á þessum árum og alveg magnað hvað borgin hefur breyst mikið til batnaðar. Laugavegurinn iðar af lífi, bæði eru erlendir gestir en ekki síður yngri kynslóð Íslendinga sem sækja í miðborgarlífið.“


Ævintýri hlébarðapeysunnar
Eftir Bergþóru liggja hundruðir flíka á 25 ára ferli og því ekki úr vegi að spyrja hvort hún eigi sér uppáhaldsflík. „Það er eins og oft er sagt erfitt að gera uppá milli barnanna sinna. En ég gæti t.d. nefnt hnepptan peysujakka með hlébarðamynstri sem ég hannaði á fyrstu árunum okkar og heitir Barðastaðir. Hún var úr íslenskri ull og framleidd hér heima og þess vegna fannst mér skemmtilegt að hún liti ekki endilega út fyrir að vera íslensk. Einskonar úlfur í sauðagæru. Ég man ég fór í prótótýpunni í viðtal í Fréttablaðið og það varð bókstaflega allt vitlaust í búðinni okkar daginn eftir, síminn stoppaði ekki - allir vildu þessa flík! Hún varð að margra ára ævintýri. En af því ég nefndi hér fyrr að ég er ekki sérlega nýjunagjörn langar mig að nefna að ein mín uppáhalds flík er í raun fyrsta peysan sem ég gerði og ber heitið Fell. Það var fyrsta lopapeysan sem ég gerði og olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma og hefur alla tíð verið ein af okkar vinsælustu flíkum. Hugmyndin að henni var að skírskota með mjög einföldum hætti í mynsturbekk á öxlum en hafa flíkina að öðru leyti mjög frábrugðna hefðbundinni íslenskri lopapeysu. Hún var mjög þunn og létt auk þess sem form, hálsmál og ermar voru ólíkar þessum hefðbundnu. Þessi flík hefur alltaf verið partur af línunni okkar þó ég hafi stundum breytt um hráefni og liti.“


Spennandi samstarf á HönnunarMars 2026
Í lokin ræðum við þátttöku Farmers Market á HönnunarMars, sem fer fram 6. - 10. maí nk. „Bæði við og Fischersund fjölskyldan tókum þátt í DesignTalks í vor og þar fórum við einu sinni sem oftar að ræða hvort ekki væri kominn tími á samstarf. Þarna ákváðum við að nú væri rétti tíminn og að við myndum gera eitthvað saman fyrir næsta HönnunarMars og vera þá tilbúin með sameiginlegan ilm. Þannig að afmælisárið hjá okkur hefur farið á fullt í að búa til ilminn og vinna í sögunni um hann. Ilmurinn sem við erum rosalega spennt fyrir verður kynntur á næsta HönnunarMars með einhverskonar gjörningi sem þessi tvö fjölskyldufyrirtæki eru að undirbúa. Það má segja að ilmurinn fangi kjarnann og upprunann okkar, smá sveit og smá borg og jafnvel má finna smá fjós í fjarska auk ilms af möndluvínarbakkelski frá strætum Kaupmannahafnar. Við erum öll sjúk í þessa lykt,“ segir Bergþóra án þess að gefa allt of mikið upp.
Og í blálokin - einhver ráð fyrir unga hönnuði sem hafa áhuga á bransanum? „Fylgja innsæinu og hjartanu. Það hefur sýnt sig og sannað sem besta ráðið bæði hjá mér og manninum mínum. Ég get ekki sagt að það hafi verið eitthvað borðleggjandi dæmi sem myndi ganga upp þegar við ákváðum bæði að fara í listnám eða eins og ein góð eldri kona sagði eitt sinn við okkur pínu áhyggjufull: „jahá, þið ætlið bara bæði að feta þyrnum stráða braut listarinnar,“ gantast Bergþóra en sú vegferð hefur klárlega gengið vel og spennandi að sjá hvernig framhaldið verður hjá þessu stönduga og flotta fyrirtæki.




