Norræna húsið heimili tísku á HönnunarMars 2026! Ert þú með hugmynd?

HönnunarMars fer fram 6. - 10. maí 2026 en undirbúningur hátíðarinnar er í fullum gangi. Norræna húsið í Vatnsmýri, hönnunarperla eftir finnska arkitektinn Alvar Aalto, verður heimili/ miðstöð tísku á hátíðinni.
Ef þú ert fatahönnuður sem ætlar að taka þátt á HönnunarMars köllum við eftir hugmyndum frá þér; hvernig hægt er að nota Norræna húsið sem best og mest þegar kemur að tísku á hátíðinni?
Listrænn stjórnandi í Norræna húsinu er Anna Clausen. Anna útskrifaðist frá London College of Fashion og hefur unnið í og við tísku síðan um aldamót. Allt í senn sem stílisti, listrænn stjórnandi og módel en hefur að auki skrifað og unnið með virtum tískutímaritum á borð við Vogue og Dazed & Confused. Anna kennir nemum í fatahönnun í LHÍ og hefur séð um Young Talents of Fashion á HönnunarMars.
Þema hátíðarinnar í heild sinni er tengingar og við hvetjum þátttakendur til að vinna með þemað á allan mögulega máta, óbeint eða lóðbeint. Við lifum í heimi sem er bæði aftengdur og ofurtengdur en vitum samt innst inni að töfrarnir liggja í tengingunum sem eru grunnurinn að öllu hinu. Lífæðar samfélaga, þræðir milli fólks, ný sjónarhorn, leiðin að hjartanu. Ert’ að tengja?
Við hvetjum hönnuði til að senda inn umsóknir á info@honnunarmars.is fyrir miðnætti þann 5. desember.


