Hanna Dís með sýningu á hönnunarvikunni í Vín
Hanna Dís Whitehead vöruhönnuður tók þátt á nýafstaðinni hönnunarviku í Vín í Austurríki á sýningu þar sem þemað var öldrun.
„Ég gerði veggblóm með strálögðum íslenskum hafrastrám, keramik og mohair ull. Þemað, öldrun, passaði við blómin þar sem ég á vissan hátt stöðva náttúrulega öldrun stránna með því að þurrka þau og stöðva þannig tímann,“ segir Hanna Dís. Stráin voru í framhaldinu lituð með náttúrulegum efnum en með tímanum fer liturinn að dofna og þannig má segja að stráin fari aftur að eldast. „Strálagning er aðferð sem er ekki mjög þekkt á Íslandi en ég fékk til að mynda orðið strálagning samþykkt sem nýyrði hjá Árnastofnun!“
Strálagning skv. Nýyrðavef Árnastofnunar: Straw marquetry, svipað og spónlagning nema í þessu tilviki eru strá límd niður í stað spónarviðs.







Ofurfalleg og náttúrulega gljáandi strá
Hanna Dís heldur áfram og lýsir vinnuaðferðinni fyrir sýninguni. „Ég týni strá á akrinum á haustin, þurrka og lita svo í framhaldinu. Síðan eru þau klippt niður, klofin og flött út. Þar með eru þau tilbúin til strálagningar þar sem hvert strá er límt niður oftast á viðar yfirborð í allskonar mynstur. Stráin eru ofurfalleg og náttúrulega gláandi, því þarf ekkert lakk.“
Talið berst að hönnunarvikunni í Vín, sem kláraðist nú í byrjun október. Hanna Dís segir hátíðina skipta máli fyrir hönnuði, sem geti þar kynnt verk sín fyrir nýjum hópi af fólki og styrkt tengslanetið. „Auk þess er svo mikilvægt að sjá hvað er að gerast í hönnun utan Íslands.“
Strauja nafnspjöld og æfa þýskuna
Undirbúningurinn stóð yfir í nokkra mánuði, fyrst umsóknarferli og í framhaldinu samtal við sýningarstjóra, skipuleggja sendingar á verkum og fleira í þeim dúr. „Vera með uppfærða heimasíðu, taka myndir af verkunum og vera klár með allar upplýsingar. Og auðvitað strauja nafnspjöldin og æfa sig í þýskunni!“
Hanna Dís Whitehead (1982) útskrifaðist frá Design Academy Eindhoven árið 2011 og hefur í gegnum tíðina reglulega tekið þátt á HönnunarMars. Næsti HönnunarMars fer fram í Reykjavík 6. - 10. maí 2026.