Hjalti Karlsson og Stefan Sagmeister á DesignTalks 2026

Grafíski hönnuðurinn Hjalti Karlsson og Stefan Sagmeister, einn allra áhrifamesti hönnuður samtímans stíga á svið í Hörpu þann 6. maí og tala um ferilinn, sögurnar að baki verkum sínum og persónulegu tengingarnar. Hjalti og Sagmeister eru fyrstu hönnuðirnir sem eru kynntir til leiks á næsta DesignTalks.
Hjalti Karls
Hjalti Karlsson sameinar minimalíska hönnun, frásagnarlist og mannmiðaða nálgun á rými og í miðlun. Hann er borinn og barnfæddur Reykvíkingur og annar stofnanda Karlssonwilker, sem hefur verið starfandi í NYC frá 2000. Hönnunarstofan er þekkt fyrir mjög frumlega nálgun fyrir viðskiptavini af ýmsum toga s.s Bloomberg, Guggenheim safnið, TIME Magazine, Vitra og fjölda íslenskra aðila. Hjalti er eftirsóttur fyrirlesari og tekur reglulega þátt í alþjóðlegum dómnefndum. Hann hefur auk þess hlotið ein virtustu hönnunarverðlaun heims, sem kennd eru við Torsten og Wanja Söderberg fyrir árangursríkan feril í grafískri hönnun.
Stefan Sagmeistar
Stefan Sagmeister hefur unnið Grammy verðlaunin tvisvar og fjallar iðulega um stóru viðfangsefni lífs okkar eins og hamingju og fegurð, hvernig þau tengjast hönnun og hvað þetta þýðir fyrir daglegt líf. Sagmeister er fæddur í Austurríki en hefur rekið stofu í NYC um árabil og hannað fyrir fjölbreytta viðskiptavini á borð við Rolling Stones, HBO, Guggenheim safnið. Hann er einn þriggja fyrirlesara sem oftast hafa komið fram hjá TED og bækur hans seljast í hundruðum þúsunda eintaka. Sýningarnar hans hafa verið settar upp í söfnum um allan heim og ríflega hálf milljón gesta hvaðanæva komu á “The Happy Show”, sem varð mest sótta grafíska hönnunarsýning sögunnar.






Ævilöng vinátta aukaverk hönnunar
Í þetta sinn er þema DesignTalks þræðirnir sem tengja allt saman og töfrarnir sem liggja í tengingum, útfrá þema HönnunarMars hátíðarinnar sjálfrar. Spurður um tengingar segir Sagmeister:
„Við Hjalti unnum saman í mörg ár. Þegar ég fór í rannsóknarleyfi og hann opnaði sína eigin vinnustofu héldum við áfram sambandi. Nú eru konurnar okkar tengdar. Ein af fallegustu aukaverkunum hönnunar er að eignast ævilanga vináttu.“
DesignTalks er stærsti viðburður HönnunarMars sem fer fram 6. - 10. maí 2026, framleiddur af Miðstöð Hönnunar og arkitektúrs frá 2008.


