HönnunarMars fyrir áhugafólk um arkitektúr

28. apríl 2023
Ljósmynd: EXPO2100 - VirkkaladeVocht Arkkitehdit: A Recipe for Good Living - Visualisation by Sergio Sergio Rod Gorostizaga Areality

HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 3. til 7. maí nk. og breiðir úr sér um alla borg. Rúmlega 100 sýningar og 120 viðburðir eru á dagskrá í ár og því ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi.

Hefur þú sérstakan áhuga arkitektúr? Ertu að forvitin um nýjar og óvæntar nálganir á hið manngerða umhverfi sem er allt í kringum okkur? Hér eru nokkrir viðburðir sem gætu mögulega svalað forvitinni.

Adapt & Evolve

Sýningin Adapt & Evolve, sem fer fram í Norræna húsinu, kynnir hluta af doktorsnámi Neuza Valsdas sem þar rannsakar hún leiðir til að draga úr kolefni og aðlögun að loftslagi í byggingariðnaðnum. Sýningin er gagnvirk og samanstendur m.a. af leikhúsi, lífkoli og mycelium kubbum, sem eru hluti af rannsókninni.

Fjögur sjónarhorn á náttúru og mannkyn í Slökkvistöðinni

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi opnar dyr sínar fyrir almenningi eftir nýlegar endurbætur. Innan veggja verksmiðjunnar leynist Slökkvistöðin sem er ný vinnustofa og sýningarrými fyrir arkitektúr og rýmislist. Slökkvistöðin tekur í fyrsta skipti þátt í HönnunarMars en til sýnis verða verkefni arkitekta og hönnuða þar sem sjónum er beint að mannkyni og náttúru, hringrás og vongóðri framtíð. Opnunarhóf allra fjögurra sýninganna verður föstudaginn 5. maí frá kl. 16 til 19.

35.000 íbúðir á 10 árum: Hvernig er best að gera þetta?

Á HönnunarMars í ár ætlar Arkitektafélag Íslands, í samstarfi við Grænni byggð og Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS) að standa fyrir málstofu þar sem gæði, umhverfið og samfélag er sett í fyrsta sæti. Málstofan fer fram 5. maí kl. 14.00 í Grósku, stóra fyrirlestrarsalnum.

Hlaupið um arkitektúr

Arkitektafélag Íslands býður nú í annað sinn upp á hlaupaviðburð á HönnunarMars. Arkitektar munu leiða þig um fjölbreytt og margslungið umhverfi borgarinnar á hlaupum. Alls verða tvö hlaup farin, laugardaginn 6. maí og sunnudaginn 7. maí. Hlaupin hefjast í Grósku-Vatnsmýri kl. 11.00.

EXPO2100 – Home and City in the Future

Má enn bjarga framtíðinni? Hvaða breytingar og ákvarðanir þarf að taka í samhengi við samfélag okkar og hið byggða umhverfi svo að við getum átt bjarta framtíð? Sýningin EXPO2100 – Home and City in the Future er samsýning nokkura norskra og finnskra arkitektastofa, sem hafa allar hlotið fjölda aþjóðlegra verðlauna. Hún gefurjákvæða sýn inn í framtíðina. Sýningin fer frá í Artic Space, nýju sýningarrými á Óðinsgötu 7.

Leiðsögn um ný húsakynni Landsbankans

Nýtt húsnæði Landsbankans við Reykjastræti 6 er hannað með það í huga að auka samvinnu, stuðla að sjálfbærni og efla mannlíf í miðbænum. Laugardaginn 6. maí býður Landsbankinn í nokkrar skipulagðar leiðsagnir um húsið. Leiðsagnirnar eru leiddar af Halldóru Vífilsdóttur, verkefnastjóra framkvæmdarinnar, og Helga Mar Hallgrímssyni, arkitekt nýbyggingarinnar. Hver ganga tekur um 30 mínútur og er þetta einstakt tækifæri til að skoða nýja og spennandi byggingu í hjarta miðbæjarins. Hámarksfjöldi gesta er í hverri göngu og skráning því nauðsynleg.

Design Diplomacy x Finnland

Í fimmta sinn bjóða erlendir sendiherrar hönnuðum frá sínum heimalöndum að taka þátt í opnu samtali við íslenska kollega á HönnunarMars. Fimmtudaginn 4. maí frá kl. 12:00 - 14:00 býður Anu Irene Laamanen, sendiherra Finnlands á Íslandi, arkitektnunum Miia-Liina Tommila (FI) og Arnhildi Pálmadóttur (IS) til sín í finnska sendiherrabústaðnum til að eiga áhugavert og óvænt samtal um hönnun. Naðuðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn.

Leiðsögn um Eddu-hús íslenskunnar

Hornsteinar arkitektar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og Eddu - hús íslenskunnar bjóða skipulagða leiðsögn um húsið á HönnunarMars í ár. Ögmundur Skarphéðinsson og Ólafur Hersisson arkitektar hjá Hornsteinum arkitektum leiða göngurnar sem fara fram laugardaginn 6. maí og tekur hver leiðsögn 30 mínútur. Árið 2008 var haldin samkeppni um byggingu fyrir nýstofnaða Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands þar sem Hornsteinar arkitektar hrepptu fyrsta sætið. Edda-hús íslenskunnar, var vígt við hátíðlega athöfn síðasta vetrardag 19.apríl síðastliðinn.

Dagsetning
28. apríl 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • HönnunarMars
  • HA
  • Fagfélög
  • Arkitektúr