HönnunarMars fyrir áhugafólk um tísku

28. apríl 2023
Ljósmynd: MAGNAR / ull & konfetti

HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 3. til 7. maí nk. og breiðir úr sér um alla borg. Rúmlega 100 sýningar og 120 viðburðir eru á dagskrá í ár og því ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi.

Áhugafólk um tísku og fatnað þarf ekki að örvænta því dagskrá HönnunarMars er stútfull af áhugaverðum tískuviðburðum og sýningum. Hér eru nokkrir þeirra.

Innsýni

Samsýningin Innsýni er nú haldið annað árið í röð. Markmið hennar er að kynna unga íslenska hönnuði, sem hafa útskrifast nýlega, fyrir íslenskum og erlendum markað. Mmarkmið Innsýnis er að gefa hönnuðum stökkpall til þess að kynna verk sín og halda áfram að þróa hönnun sína. Ýmiskonar viðburðir verða haldnir í tengslum við sýninguna en má þar m.a. nefna pallborðsumræðurnar Samtal á milli hönnuða um hvert framtíð sjálfbærrar fatahönnunar og textíls stefnir fimmtudaginn 4. maí kl 17:30 - 19:30 og lifandi sýninguna Sense of fabric sem fer fram föstudaginn 5. maí frá kl. 17:00 - 18:00.

Kormákur & Skjöldur og Farmers Market

Farmers Market og Kormákur & Skjöldur sýna hönnun sína á tískusýningu í Listasafni Reykjavíkur föstudagskvöldið 5. maí frá kl. 19:30 - 21:30.

Kormákur & Skjöldur munu sýna nýja 2023 haustlínu sína sem var sýnd nýlega á tískuvikunum í Flórens og Kaupmannahöfn við góðar undirtektir. Farmers Market mun kynna til leiks nýja hönnun í bland við klassískar flíkur í vörulínu sem hefur átt mikilli velgengni að fagna á síðustu árum.

MAGNEA / ull & confetti

MAGNEA kynnir nýja línu með upplifunarviðburði og tískuinnsetningu á Exeter Hotel laugardaginn 6. maí frá kl. 15:00 - 17:00. Fatamerkið hefur undanfarin ár vakið verðskuldaða athygli fyrir frumlega og listræna nálgun sína á prjón og íslenska ull.

Swimslow

Swimslow kynnir tímaritið „The Swimslow Wellness Guide“ og býður í innflutningspartý í nýtt stúdíó og showroom á Seljavegi 2, fimmtudaginn 4. maí kl. 19-21. Drykkir, tónlist og stemmning.

Sundfatamerkið Swimslow kynnir tímaritið „The Swimslow Wellness Guide“ sem er svokallað „zine“ og er uppfullt af vellíðunarinnblæstri og fangar hugarheim merkisins. Við ætlum að fagna með innflutningspartýi í nýtt stúdíó og showroom á Seljavegi 2, fimmtudaginn 4. maí kl. 19-21. Drykkir, tónlist og geggjuð stemmning.

Yomigæri II

9 hannaðir hlutir,
með 9 mismunandi vistvænum aðferðum,
innblásnar af 9 herbergjum helvítis í Dante’s Inferno.

Yomigæri II er framhald af verkefni hönnuðanna Marko Svart (Svartbysvart) og Jarkko Kinnunen sem þeir sýndu á HönnunarMars 2021. Að þessu sinni kemur hönnun þeirra frá hugmyndum um eld og sjóðandi vatn helvítis. Saman skapa þeir leirmuni og fatnað með íslenskum náttúruefnum. Sýningin fer fram í versluninni Svartbysvart við Týsgötu 1.

Breeze 2023

Hildur Yeoman kynnir nýja sumarlínu á HönnunarMars! Hildur Yeoman býður í partý föstudaginn 5. maí frá kl. 17:30 í verslun Yeoman, Laugavegi 7.

Komdu í sjómann

Fatamerkið Bið að heilsa niðrí Slipp eða BAHNS frumsýnir glænýja peysu og býður gestum og gangandi að taka þátt í keppni (eða bara hvetja keppendur) í sjómann á Sjóminjasafninu. fimmtudaginn 4. maí frá kl. 17:00 - 19:00. Hægt er að skrá sig fyrirfram á heimasíðu BAHNS eða á staðnum á meðan keppninni stendur.

Helga Björnsson x  Reykjavik EDITION

Velkomin um borð í hugarheim hátískuhönnuðarins Helgu Björnsson. Taktu flugið á vorfögnuði á The Roof á Reykjavik Edition Hotel föstudaginn 5. maí frá kl. 17:00 - 19:00. Helga Björnsson hefur starfað sem búningahönnuður, listamaður og hátískuhönnuður til margra ára í París.  Hún er þekkt fyrir litagleði og geometrísk mynstur í hönnun sinni. Komdu og njóttu litríkra kokteila og bragðaðu á kökum með mynstrum eftir Helgu frá  matarlistakonunni Áslaugu Snorradóttur og kökulistamönnum Edition hótelsins. 

Tískupartý í Kiosk Granda

Kiosk Grandi heldur tískupartý fyrir gesti og gangandi fimmtudaginn 4. maí frá kl. 16:00 - 20:00 þar sem komandi sumri verður fangað auk þess sem hægt verður að skoða það nýjasta sem er í boði hjá merkjum Kiosk Granda. Sérstakur hönnunarkokteill verður borin fram fyrir gesti innblásinn af Grandanum ásamt hressum sumartónum.

AFTURGANGA

AFTURGANGA er skúlptúrísk nálgun á hönnun klossa hannaðir af Maggy Duchamp. Fókusinn er á staðbundið hráefni og íslenska hönnun. AFTURGANGA má segja að sé framganga eða hringrás efna sem gefið er nýtt hlutverk til þess að lenga líftími þeirra og forðað þeim frá landfyllingu. AFTURGANGA og „ruslið“ í kringum okkur er sett í nýtt samhengi þar sem útkoman er Avant-garde. Sýningin fer fram í versluninni 38 þrep á Laugarvegi 49.

Ddea pop-up í GK Reykjavík

ddea fagnar nýrri fatalínu með pop-up viðburði í GK Reykjavík á Hafnartorgi dagana 3. til 7. maí. ddea er nýtt íslenskt fatamerki sem sérhæfir sig í hágæðafatnaði úr gullfallegum efnum en merkir notar aðallega ítalskt „dead-stock" silki í vörurnar sínar.

VOR / SUMAR - ANITA HIRLEKAR

ANITA HIRLEKAR kynnir Sumarlínu ’23 , fimmtudaginn 4. maí í KIOSK Granda frá kl. 16:00 - 20:00, en línan inniheldur litríka kjóla og toppa í handteiknuð, listrænum blómamunstrum. Hönnunin er tímalaus en öll línan er gerð úr endurunnum efnum.

Leyndir skuggar

Halla Armanns sýnir einstaka íslenska prjónahönnun þar sem flókið vélprjón og einstakt handverk mætast með það að markmiði að efla, þróa og nútímavæða prjónahandverk, samhliða því að styrkaj islenskar prjónahefðir. Á sýningunni kannar Halla möguleika prjóns og hvernig það getur teygt sig út fyrir rammann á óhefðbundinn hátt með því að samtvinna vél og hönd. Sýningin fer fram í Fótógrafí á Skólavörðustíg 22.

#íslenskflík

Fatahönnunarfélag Íslands teflir fram fjórðu herferð verkefnisins #íslenskflík á HönnunarMars í ár. Markmiðið er að beina sjónum að þeim framúrskarandi hönnuðum sem starfa við fatahönnun á Íslandi og fagna þeirri grósku sem meðlimir félagsins stuðla að víða í geiranum. Sýningin fer frá á Hafnartorgi en gestir á HönnunarMars eru einnig hvattir til þess að deila sinni íslensku flík á semafélagsmiðlum með því að nota myllumerkið #íslenskflík

Tweed og ilmheimur Kormáks & Skjaldar í Listasafni Reykjavíkur

Á HönnunarMars munu Kormákur & Skjöldur sýna þróun sína á Íslenska Tweedinu og vörum þess ásamt því að kynna fleiri vörur í ilmlínu sinni. Gestir safnsins munu geta gengið inn í þennan heim Kormáks & Skjaldar á þriðju hæð safnsins.

Dagsetning
28. apríl 2023

Tögg

  • Greinar
  • HönnunarMars
  • HA
  • Fagfélög