HönnunarMars lykilstoð í menningarlífi Reykjavíkur

Hin árlega hátíð HönnunarMars, sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs heldur, er nú varanleg borgarhátíð Reykjavíkurborgar ásamt tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves.
„Með því er tryggt að tvær af mikilvægustu menningarhátíðum borgarinnar, sem styrkja bæði ímynd Reykjavíkur og atvinnulíf, verði hluti af borgarmenningu til framtíðar. Þessar hátíðir hafa sannað sig sem lykilstoðir í menningarlífi Reykjavíkur,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Og ennfremur. „HönnunarMars hefur sett Reykjavík á heimskortið sem skapandi og framsækna borg, þar sem fjölbreyttar greinar hönnunar og arkitektúrs sameinast í öflugri og faglegri hátíð sem nærir bæði atvinnulíf og samfélag.“ Síðasti HönnunarMars var sá sautjándi í röðinni en hátíðin fer næst fram 6. - 10. maí 2026.
Við sama tilefni fengu Hinsegin dagar fastan samning við Reykjavíkurborg. Að auki ákvað borgin að styrkja Reykjavík Dance Festival, Myrka Músíkdaga og Iceland Noir - Reykjavík en þrjár síðastnefndu verða borgarhátíðir árin 2026-2028.