HönnunarMars mest sótta hátíðin

HönnunarMars er mest sótta hátíðin samkvæmt nýrri könnun Prósents en spurt var hvaða menningarhátíð fólk hefur sótt síðustu þrjú ár. Tíu prósent sóttu HönnunarMars, átta prósent sóttu Listahátíð í Reykjavík, sex prósent Iceland Airwaves og fimm prósent kvikmyndahátíðina RIFF.
Tæplega 20 prósent sóttu eina eða fleiri hátíð en konur eru líklegri til að taka þátt í dagskránni en karlar samkvæmt könnuninni. Reykvíkingar og Garðbæingar eru líklegastir til þess að taka þátt í dagskrá HönnunarMars og þar á eftir koma Kópavogsbúar.
„HönnunarMars er mjög mikilvægur vettvangur fyrir skapandi greinar sem lífgar upp á borgina, styrkir alþjóðlega ímynd Reykjavíkur og hefur jákvæð menningarleg og efnahagsleg áhrif, auk þess að stuðla að samtali um framtíð borgarinnar."
Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, skrifstofustjóri menningarborgar á menningar- og íþróttasviði hjá Reykjavíkurborg.
„Þessi könnun staðfestir þá upplifun okkar að HönnunarMars sé algjör lykilhátíð þegar kemur að menningarviðburðum og mjög ánægjulegt að fá það nú staðfest! Aðsóknartölurnar auka enn frekar á metnað okkar að búa til framúrskarandi hátíð í vor en HönnunarMars fer fram 6. - 10. maí næstkomandi,“ segir Helga Ólafsdóttir stjórnandi HönnunarMars.
Prósent gerði netkönnun 22. október til 4. nóvember, 2000 einstaklingar 18 ára og eldri voru spurð og svarhlutfall var 52 prósent.


