Íslensku bókahönnunarverðlaunin afhent í fyrsta sinn

Íslensku bókahönnunarverðlaunin verða afhent í fyrsta sinn föstudaginn 16. janúar kl. 16:00 í Hönnunarsafni Íslands. Að verðlaununum standa Félag íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT) og Félag íslenskra teiknara (FÍT).
Veitt verða verðlaun fyrir framúrskarandi bókahönnun í tveimur flokkum, annars vegar fyrir bestu bókarkápuna og hins vegar bestu bókarhönnunina. Allar tilnefndar bækur verða lagðar fram til verðlauna Stiftung Buchkunst fyrir Íslands hönd.

Á sama tíma opnar í safninu sýningin Fallegustu bækur í heimi, með bókum sem hafa hlotið alþjóðlegu verðlaunin Best Book Design from all over the World sem Stiftung Buchkunst hefur staðið fyrir í rúm 50 ár. Samtals eru þetta 14 bækur sem gestir geta flett og skoðað á sýningunni. Bókin sem hlaut aðalverðlaunin "Goldene Letter" er Forget Me Not / Vergissmeinnicht hönnuð af Rudy Guedj.
Til viðbótar við alþjóðlegu bækurnar verða á sýningunni þær bækur sem tilnefndar eru til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna í ár.
Sunnudaginn 18. janúar kl. 13:00 verður Birna Geirfinnsdóttir með erindi um bókahönnun en hún var í dómnefnd sem stóð fyrir valinu á Fallegustu bók í heimi.


