Lavaforming á leið til Íslands

Sýningin Lavaforming, framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins 2025, verður sett upp í Listasafni Reykjavíkur. Lavaforming opnaði í Feneyjum í maí sl. og lauk nú í nóvember. Feneyjartvíæringurinn fer næst fram árið 2027 og mun Miðstöð hönnunar og arkitektúrs halda utan um þátttöku Íslands þar.
Tvíæringurinn í arkitektúr var sá mest sótti hingað til en samtals seldust 300 þúsund miðar og á foropnun í Feneyjum mættu tæplega 18 þúsund manns. Lavaforming hlaut góðar viðtökur meðal almennings en einnig var mikil fjallað um sýninguna í íslenskum sem erlendum miðlum.
Lavaforming opnar í Listasafni Reykjavíkur 24. janúar 2026 og stendur yfir til 26. apríl.
Um sýninguna
Lavaforming er framtíðarsýn í arkitektúr þar sem glóandi hraun er notað sem byggingarefni fyrir mannvirki og heilar borgir. Sýningin segir sögu framtíðarsamfélags sem hefur lært að temja hraunflæði, nýta sér það og þannig breytt staðbundinni ógn í tækifæri til sköpunar.
Sagan gerist árið 2150 þegar Íslendingar hafa beislað hraunrennsli líkt og við gerðum við gufuaflið á 20. öld. Sagan er vörðuð með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmið hennar er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn sem endurhugsar og mótar nýja framtíð. Hraunflæði getur innihaldið nóg byggingarefni fyrir grunnstoðir heillrar borgar sem rís á nokkrum vikum án skaðlegrar námuvinnslu og óendurnýtanlegrar orkuöflunnar.



Um teymið
Höfundar Lavaforming eru arkitektastofan s. ap arkitektar, þverfagleg rannsóknarstofa með áherslu á tilgátuverkefni framtíðarinnar. Í sýningarteyminu eru Arnhildur Pálmadóttir, Arnar Skarphéðinsson, Andri Snær Magnason, Björg Skarphéðinsdóttir hönnuður og Sukanya Mukherjee arkitekt frá s. ap arkitektum, Jack Armitage tónlistarmaður og margmiðlunarhönnuður, hönnunarstofan Studio Studio og Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sér um framkvæmd íslenska skálans í Feneyjum með stuðningi menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins.


