Náttúruverndarstofnun hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2025

Náttúruverndarstofnun hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2025 fyrir framúrskarandi nálgun við uppbyggingu gestastofa með hönnun og arkitektúr að leiðarljósi.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í þjóðgörðum landsins undanfarna tvo áratugi í takti við fjölgun ferðamanna íslenskra og erlendra. Mikill metnaður og framsýni hefur einkennt þessa uppbyggingu þar sem vönduð nálgun, verndun náttúrunnar og góð upplifun gesta á friðlýstum svæðum er höfð að leiðarljósi. Þess er vel gætt að framkvæmdir valdi sem minnstu raski og byggingar falli vel að náttúrunni. Þjóðgarðsverðir, stjórnendur og verkefnastjórar þjóðgarðanna hafa í mörgum tilfellum valið að halda samkeppnir á meðal arkitekta og hönnuða hvor tveggja um byggingar og sýningar með mjög góðum árangri.
Náttúruverndarstofnun rekur átta gestastofur um allt land en þær þjóna sem hlið inn á friðlýst svæði og þjóðgarða og veita gestum margvíslega þjónustu og upplýsingar.
Einnig eru landvörslustöðvar og skrifstofur á gestastofunum. Fimm gestastofur eru í Vatnajökulsþjóðgarði, tvær í Snæfellsjökulsþjóðgarði, á Ísafirði og í Vestmanneyjum. Uppbygging gestastofanna hefur farið fram á mismunandi tímum og eru þær ýmist í nýjum húsum eða eldri og endurnýttum, í flestum eru vandaðar og vel hannaðar sýningar þar sem gestir geta leitað sér fróðleiks um náttúru, sögu, menningu og umhverfi.
Hér er yfirlit yfir gestastofur sem dómnefnd leit sérstaklega til sem bestu fjárfestingu í hönnun. Snæfellsstofa í Vatnajökulsþjóðgarði, bygging eftir Arkís frá 2010. Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi í Snæfellsjökulsþjóðgarði, bygging eftir Arkís frá 2023, Skaftárstofa í Vatnajökulsþjóðgarði, bygging eftir Arkís frá 2024.
Gígur gestastofa í Vatnajökulsþjóðgarði, sýning eftir SP(R)INT STUDIO og Nissen Richards Studio frá 2025. Skaftárstofa í Vatnajökulsþjóðgarði, sýning eftir SP(R)INT STUDIO og Nissen Richards Studio frá 2025. Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi í Snæfellsjökulsþjóðgarði, sýning eftir Kvorning Design, Yoke og Verkstæðið opnar 2025.
Þjóðgarðarnir hafa verið reknir hver fyrir sig en hafa nú verið sameinaðir undir einum hatti í Náttúruverndarstofnunar, að Þjóðgarðinum á Þingvöllum undanskildum. Ákvarðanir um uppbyggingu og hönnun hafa þess vegna verið teknar af ólíku fólki, sem hefur greinilega verið sama sinnis og augljóst að sami metnaður hefur ríkt í þjóðgörðunum. Leiða má líkum að því að uppbygging og samkeppni um gestastofu á Hakinu í Þjóðgarðinum á Þingvöllum 2001, sem arkitektarnir Gláma Kím hönnuðu í samstarfi við Landslag og sýning í gestastofu Haksins sem Gagarín hannaði hafi markað ákveðið upphaf að þeirri nálgun að leggja mikla áherslu á samstarf við hönnuði og arkitekta og halda samkeppnir um verkefnin.
Fjöldi manns hafa komið að þessari uppbyggingu, starfsmenn þjóðgarðanna, hönnuðir og arkitektar. Öllu þessu fólki er veitt viðurkenningin Besta fjárfesting í hönnun með ósk um að þjóðgarðarnir undir stjórn Náttúruverndarstofnunar haldi áfram á þessari fallegu og vönduðu vegferð og geti þannig með stolti þjónustað gesti sem njóta stórbrotinnar náttúru Íslands.





Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 6. nóvember og er þetta í tólfta sinn sem verðlaunin eru veitt.
Viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun var veitt í fyrsta sinn 2015 og er veitt fyrirtæki eða stofnun sem hefur hönnun og arkitektúr að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Það var Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra sem veitti viðurkenninguna í ár.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, með stuðningi frá Íslandsstofu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Grósku, Vísindagörðum Háskóla Íslands og Bláa Lóninu.