Opið kall - hugmynd að sýningu Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2027

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs kallar eftir hugmynd og tillögu að sýningu Íslands fyrir 20. alþjóðlega tvíæringinn í arkitektúr í Feneyjum, sem mun standa yfir frá 8. maí til 21. nóvember 2027. Þetta er í annað sinn sem Ísland tekur þátt með opnu kalli.
Kallað er eftir þverfaglegum teymum með virka tengingu og skilning á íslenskum arkitektúr og reynslu af miðlun, hönnun og vinnslu fjölbreytilegra skapandi verkefna. Umsækjendur af öllum þjóðernum eru hvattir til þátttöku.
Leitað er að sterkri og áræðinni hugmynd að sýningu fyrir íslenska skálann 2027, sem veitt getur innblástur og vakið eftirtekt en er um leið raunhæf og framkvæmanleg.
Markmið þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr er að fanga erindi og viðfangsefni íslensks arkitektúrs og samspil hans við alþjóðlega strauma og umræðu, og ber vitni um hugvit og sköpun í hinu byggða umhverfi sem nýst getur til að mæta áskorunum samtímans.
Sýningunni er ætlað að höfða til breiðs hóps, veita innblástur og vekja sýningagesti til umhugsunar um leið og hún vekur athygli á íslenskum aðstæðum, áskorunum og lausnum á forsendum arkitektúrs og hins byggða umhverfis.
Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr
Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr er ein stærsta alþjóðlega sýning á sviði arkitektúrs í heiminum. Þar eru tekin fyrir framsækin viðfangsefni í arkitektúr, borgarskipulagi og samfélagslegum áskorunum og sækja um 300.000 manns hátíðina. Ísland tók í fyrsta sinn þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025 með opnu kalli. Sýningin Lavaforming var valin sem framlag Íslands og vakti mikla athygli víða um heim.
Mennta-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti hefur falið Miðstöð hönnunar og arkitektúrs umsjón með framkvæmd verkefnisins.
Tveggja þrepa valferli
Leitað er að hugmyndum í gegn um opið kall og tveggja þrepa umsóknarferli. Stýrihópur verkefnisins ber ábyrgð á valinu. Í fyrra þrepi er óskað eftir hugmynd að nálgun og sýningu ásamt einfaldri myndrænni framsetningu. Í seinna þrepi eru þrjú til fjögur teymi valin til að kynna hugmyndir sínar fyrir stýrihópnum. Að loknum kynningum verður eitt teymi valið og ráðið til verkefnisins og við tekur vinna við undirbúning og framkvæmd íslenska skálans á Feneyjartvíæringnum í arkitektúr 2027.
Opið kall
Opið er fyrir innsendingar á hugmyndum frá 18. desember 2025 til 30. janúar 2026.
Umsækjendur geta sent fyrirspurnir um atriði sem varða valferlið til og með 12. janúar gegnum netfangið icelandicpavilion@honnunarmidstod.is. Fyrirspurnir og svör við þeim verða birt á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs þann 14. janúar.


