Samfélag hönnuða og arkitekta í Grósku

Langar þig að starfa eða halda viðburð í suðupotti nýsköpunar og hönnunar á Íslandi? Gróska hugmyndahús er miðpunktur nýsköpunar á Íslandi og öflugt umhverfi fyrir einstaklinga og fyrirtæki þar sem hugmyndir verða að veruleika innan um auðugt mannlíf og menningu.
Í Grósku, sem er á Vísindagörðum, hefur á nokkrum árum skapast öflugt og fjölbreytt samfélag hönnuða og arkitekta. Þar starfar í dag stór hópur skapandi fagfólks sem telur nú um 400–450 manns og spannar allar helstu greinar hönnunar og arkitektúrs, allt frá vöru- og grafískri hönnun til arkitektúrs, þjónustu- og upplifunarhönnunar.

Slík samþjöppun er einstök á Íslandi og skapar jarðveg fyrir samtal, samvinnu og nýjar hugmyndir á milli ólíkra fyrirtækja og greina. Styrkur þessa samfélags felst ekki aðeins í fjöldanum heldur í fjölbreytileikanum. Í daglegu starfi mætast ólík sjónarhorn, aðferðir og reynsla sem ýta undir gæði verkefna og hraða þróun nýrra lausna. Í Grósku hefur orðið til samfélag þar sem hönnun og arkitektúr eru ekki aðeins atvinnugreinar heldur sameiginlegt tungumál, afl sem mótar hugmyndir, lausnir og framtíðarsýn. Þar verður til kraftur sem styrkir stöðu hönnunar sem lykilafls í íslensku samfélagi og hefur áhrif á þróun skapandi greina á Ísland.

Mikilvægur þáttur í þessu skapandi umhverfi er öflug tengslamyndun og virk miðlun þekkingar. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur reglulega fyrir fjölbreyttum viðburðum í Grósku sem skapa vettvang fyrir umræður og innblástur, m.a. Hönnunarverðlaun Íslands, fyrirlestraröðina „Tölum um hönnun og arkitektúr“, úthlutanir úr Hönnunarsjóði og fjölbreytta dagskrá í tengslum við HönnunarMars. KLAK, Icelandic Startups stendur einnig fyrir fjölda viðburða í Grósku svo sem Gullegginu og Startup Supernova. Auk þess stendur fjöldi annarra aðila fyrir viðburðum á ólíkum sviðum sem eru gagnlegir fyrir íbúa.

Í Grósku mætist fagfólk, fræðasamfélag og almenningur. Grasrót sem hefur aðsetur í Mýrinni, nýsköpunarsetri Vísindagarða Háskóla Íslands og minni og stærri fyrirtæki í Gróðurhúsinu eða almennri leigu. Það má nefna auglýsinga- og sköpunarstofuna Brandenburg, CCP, upplifunar- og sköpunarstofuna Gagarín, fjölda arkitektastofa, m.a. Tröð, Skala, Esju og Plan Studio og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
Áhugasömum er bent að hafa samband við mottaka@groska.is fyrir frekari upplýsingar. Einnig má hafa samband við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs info@honnunarmidstod.is.


