Samsýningin STJAKAR endurspeglar fjölbreyttar vinnuaðferðir hönnuða

STJAKAR, sem opnaði hjá HAKK Gallery um helgina, er ný samsýning þar sem hönnuðir, arkitektar, handverks- og myndlistafólk, bæði innlent og erlent hannar ákveðinn hlut með frjálsri aðferð og efnisnotkun. Að þessu sinni kertastjaka eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna.
„Með þessum sýningum langar okkur að bjóða upp á vettvang fyrir samtal og umræðu. Það er svo frábært að upplifa hvað senan hér er ótrúlega fjölbreytt og mikið af spennandi hönnuðum og handverkum sem á fullt erindi. Við sjáum þessar sýningar sem mikilvægan vettvang í starfsemi HAKK Gallery til að kynnast nýjum og þekktum hönnuðum betur,” segir Brynhildur Pétursdóttir vöruhönnuður og eigandi gallerísins. Hún segir að vel hafi gengið að koma sýningunni saman og sérstaklega gaman að sjá þegar ólíkir stjakar byrjuðu að týnast inn.
„Okkur fannst tilvalið að kalla eftir kertastjökum nú þegar dimmasti tími ársins gengur í garð. Nú er tími kertaljóss og því þarf góða og skemmtilega stjaka. Svona sýning þar sem margir hönnuðir vinna að sama markmiði endurspeglar hversu fjölbreytt hönnuðir vinna, bæði hvað varðar efnisnotkun og hugmyndafræði. STJAKAR endurspegla það klárlega mjög skýrt, hér eru kertastjakar úr endurunnum textíl, keramiki, gleri, timbri, málmum og ull. Fjölbreytt flóra af efnum og aðferðum,” segir hún.
Sýningin STJAKAR stendur yfir í HAKK Gallery til 23. desember 2025.











