Sérsniðið letur fyrir menningarhús þjóðarinnar

Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, hefur tekið í notkun nýja íslenska leturgerð sem hönnuðurinn Gabríel Markan teiknaði sérstaklega fyrir húsið. Letrið heitir Harpa Sans og er útfært sérstaklega með Hörpu í huga.
Harpa Sans var hannað til að styðja við sterkt, nútímalegt og auðþekkjanlegt útlitseinkenni sem endurspeglar stöðu Hörpu sem miðju menningar, tónlistar og skapandi greina á Íslandi. Með tilkomu nýja letursins styrkir Harpa ásýndina og styður við íslenska hönnun og skapandi starf.
„Það er einstakt tækifæri að hanna letur fyrir Hörpu. Húsið er eitt mikilvægasta menningarhús landsins og leturgerðin þarf að endurspegla reisn þess og fjölbreytileika,“ segir Gabríel Markan, hönnuður Hörpu Sans.
Gabríel hefur hannað fjölda leturgerða fyrir fyrirtæki og stofnanir bæði sjálfstætt og í samstarfi við letursmiðjuna Universal Thirst. Gabríel hannaði m.a. letrið Bon sem er letur HönnunarMars. Strik Studio sér um hönnun á útliti HönnunarMars en þau völdu Bon vegna þess hvað letrið er stílhreint en fellur á sama tíma undir heildarásýnd HönnunarMars.


