Feneyjatvíæringur í arkitektúr
Feneyjatvíæringur í byggingalist er einn mikilvægasti viðburður á sviði arkitektúrs á heimsvísu. Byggingarlistin hefur verið hluti af Feneyjatvíæringnum í listum frá árinu 1968, en fékk sinn eigin vettvang árið 1980.
Upphaflega tók arkitektatvíæringurinn í byggingarlist yfir örlítinn hluta hinnar sögufrægu skipasmíðastöðvar Arsenale, en samfara vexti arkitektatvíæringsins hefur sá hluti þróast, stækkað og verið hluti af sýningarrými myndlistar- og arkitektatvíæringsins allar götur síðan, ásamt Giardini sýningarsvæðinu. Á tvíæringnum koma saman aðilar sem vinna á vettvangi arkitektúrs og þróun manngerðs umhverfis, t.a.m. fulltrúar ríkja, sveitarfélaga, arkitektar og hönnuðir, sérfræðingar á sviði byggingartækni, framleiðendur byggingarefna, fjárfestar og þróunaraðilar bygginga svo einhverjir séu nefndir. Árið 2023 voru 63 þjóðir sem tóku þátt í tvíæringnum og voru sýningagestir yfir 285.000 talsins og komu þeir allstaðar að úr heiminum.
Hraunmyndanir framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025
Verkefni s.ap arkitekta, Hraunmyndanir hefur verið valið framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025. Alls bárust tólf tillögur að sýningu í opnu kalli sem auglýst var í lok apríl af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Fjórar tillögur voru valdar til frekari kynninga fyrir stýrihóp verkefnisins sem sá um að valið.
Í verkefninu Hraunmyndanir (e. Lavaforming) er sögð saga framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð. Hraunrennsli er beislað, nýtt sem byggingarefni og tekst með því að umbreyta staðbundinni ógn í auðlind.
„Á tímum Snorra Sturlusonar, þegar síðast gaus á Reykjanesi var eldgos framandi viðburður. Í okkar sögu árið 2150 höfum við beislað hraunrennslið líkt og við gerðum með gufuaflið á 20. öld. Við vörðum söguna með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmið hennar er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn sem endurhugsar og mótar nýja framtíð. Hraunflæði getur innihaldið nóg byggingarefni fyrir grunnstoðir heillrar borgar sem rís á nokkrum vikum án skaðlegrar námuvinnslu og óendurnýtanlegrar orkuöflunar.“
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt, stofnandi og listrænn stjórnandi Hraunmyndana
Arkitektastofan s.ap arkitektar er þverfagleg rannsóknarstofa með áherslu á tilgátuverkefni framtíðarinnar. Arnhildur Pálmadóttir er stofnandi og annar eigandi s.ap arkitekta sem sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrás í byggingariðnaði ásamt því að vera listrænn stjórnandi Hraunmyndana. Hún er þekkt fyrir að nálgast verkefni með hugarfari frumkvöðuls og þverfaglegri nálgun. Arnhildur hefur skrifað greinar og texta sem tengjast arkitektúr, nýsköpun, tækni og sjálfbærni í hönnun og mannvirkjagerð auk þess að halda fyrirlestra um efnið.
Arnhildur er einn af eigendum dansk-íslenska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager, sem sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrás í mannvirkjagerð. Arnhildur er tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir þverfaglega nálgun í sinni vinnu og áherslu á endurvinnslu byggingarefnis.
Arnhildur mun ásamt teymi s.ap arkitekta og hóp sérfræðinga og þverfaglegra samstarfsaðila sýna Hraunmyndanir (e.Lavaforming) í Feneyjum 2025 fyrir Íslands hönd.
Árið 2023 samþykkti alþingi aðgerðaráætlun í málefnum hönnnunar og arkitektúrs um þátttöku Íslands í Feneyjartvíæringnum og hófst undirbúningsvinna strax í kjölfarið. Árið 2024 var í fyrsta sinn kallað eftir tillögu í opnu kalli að sýningu Íslands fyrir tvíæringinn í arkitektúr í Feneyjum sem stendur yfir frá 10. maí til 23. nóvember 2025. Mennta- og menningarmálaráðuneyti Íslands hefur falið Miðstöð hönnunar og arkitektúrs umsjón með framkvæmd verkefnisins.