Árið 2023 hjá Arkitektafélagi Íslands
Árið 2023 var viðburðaríkt og skemmtilegt að venju. Hér verður stiklað á því sem bar hæst á góma á árinu.
Stefnumót hringrásar
Vinnustofan Hringborð Hringrásar um innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði fór fram í Grósku í janúar þar sem hagaðilar í geiranum áttu innihaldsríkt samtal um aðkallandi verkefni og brýna þörf á að hraða breytingum.
Vinnustofan var skipulögð af Arkitektafélagi Íslands, Eflu, Grænni byggð og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Reykjavíkurborg og FSRE.
Um fjörutíu áhrifamiklir aðilar úr allri virðiskeðju byggingariðnaðarins, frá fasteignafélögum, verktökum, verkfræðistofum, arkitektastofum, stofnunum og stjórnvöldum tóku þátt í vinnustofunni. Niðurstaða vinnustofunnar var skýr: Ísland stendur nágrannaþjóðum að baki þegar kemur að innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði og brýn þörf er fyrir breytingar.
Opinn fundur um sama málefni fór fram síðar um daginn í Grósku þar sem gestir fengu innsýn inn þetta mikilvæga samtal ásamt því að líflegar panelumræður fóru fram.
Í pallborði tóku þátt; Borghildur Sturludóttir, deildarstjóri hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar, Friðjón Sigurðsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Reitum, Halldór Eiríksson, formaður Samark, Hermann Jónasson, forstjóri HMS og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka. Fanney Birna Jónsdóttir var fundarstjóri.
Verkefnið Hringborg hringrásarinnar er unnið með stuðningi frá Aski Mannvirkjarannsóknarsjóði.
Arkitektafélag Íslands verður eingöngu fagfélag
Á aðalfundi Arkitektafélags Íslands 15. febrúar 2023 var samþykkt að AÍ myndi einblína á hlutverk sitt sem fagfélag og hætta að vera fag-og stéttarfélag. Sterkustu rökin fyrir því að leggja niður stéttarfélag AÍ liggja í því að AÍ hefur ekki bolmagn til að sinna því að vera framúrskarandi stéttarfélag. Skrifstofa AÍ hefur síðan 2017 sinnt því að vera bæði skrifstofa stéttarfélagsins AÍ og fagfélagsins AÍ. Nú er komin nokkra ára reynsla á starfsemi AÍ sem stéttarfélags og fagfélags og hefur reynslan kennt okkur að það er snúið að reka bæði AÍ sem fag-og stéttarfélag. Kjarabarátta hefur mikið breytst á undanförnum árum og í sjónmáli eru enn meiri og gagngerri breytingar en við höfum áður séð. Sú þjónusta sem stéttarfélög eiga að veita sínum félagsmönnum krefst sífellt meiri sérþekkingar og lögfræðiþekkingar. Til að geta sinnt félagsmönnum okkar sem best og sinnt faginu sem best þykir stjórn farsælast að stéttarfélagshluti félagsins sé betur komið fyrir hjá sérhæfðum aðilum á því sviði.Frá og með 1. janúar 2024 verður AÍ eingöngu fagfélag en ekki fag-og stéttarfélag. AÍ hefur gengið inn í Fræðagarð og hefur verið myndaður sérstakur faghópur arkitekta innan Fræðagarðs. Þar geta félagsmenn unnið að kjaramálum stéttarinnar. Frá og með 1. janúar 2024 verður ekki hægt að greiða iðgjald AÍ gegnum BHM. Réttindi í sjóðum BHM munu haldast þegar félagar flytja sig úr AÍ yfir í annað aðildarfélag BHM, að því tilskyldu að greiðsla iðgjalda verði óslitin.
HönnunarMars 2023
Að venju tók Arkitektafélagið þátt í HönnunarMars. Að þessu sinni með málstofunni 35.000 íbúðir á 10 árum og viðburðinum Hlaupið um arkitektúr.
35.000 íbúðir á 10 árum
Arkitektafélag Íslands í samstarfi við Grænni byggð og Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS) stóðu fyrir málstofu á HönnunaarMars þar sem gæði, umhverfið og samfélag voru sett í fyrsta sæti. Tilefni málstofunnar ný húsnæðisáætlun ríkis og sveitafélaga en þar er talað um að tryggja byggingu 35.000 nýrra íbúða á landinu á næstu 10 árum. Málstofan var haldin í Grósku 5. maí og var stóru fyrirlestrarsalurinn þétt setinn. Erindi fluttu Anna María Bogadóttir, arkitekt og rithöfundur; Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt; Friðgeir Einarsson, rithöfundur og Kristján Örn Kjartansson, arkitekt. Panellinn var tvískiptur en í honum mættust Andri Snær Magnason, rithöfundur; Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt; Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsfræðingur; Borghildur Sturludóttir, arkitekt ; Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur; Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk; Hermann Jónsson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS); Jóhannes Þórðarson, arkitekt; Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI); Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra; Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt. Fundarstjórn var í höndum Brynju Þorgeirsdóttur.
Hlaupið um arkitektúr
Í ár, rétt eins og árið að undan skipulagði Arkitektafélag Íslands arkitektahlaup. Í ár var hlaupið tvisvar sinnum, laugardag og sunnudag og var ágætlega mætt í bæði hlaupin. Þemað í ár var gamalt og nýtt og var m.a. hlaupið um gamla Hegningarhúsið á Skólavörðustígnum og um Eddu-Hús íslenskunnar.
Við vonum að þessi viðburður sé kominn til að vera og að hann muni stækka á komandi árum!
Úthlutun úr Minningarsjóði Guðjóns Samúelssonar
Þann 1. júní var veitt í þrettánda sinn úr Minningarsjóði Guðjóns Samúelssonar. Í ár var styrkurinn veittur til Halldóru Arnardóttur listfræðings en hún hlaut 1.000.000 kr til að ljúka ritstörfum um Skarphéðinn Jóhannssson arkitekt (1914-1970). Halldóra Arnardóttir er með doktorsgráðu í byggingarlistasögu og starfar sem sjálfstætt starfandi fræðimaður. Hún hefur skrifað fjölda greina um arkitektúr og hönnun bæði heima og erlendis.
Arkitektaráðstefnan UIA 2023
Arkitektafélag Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við norrænu arkitektafélögin, Sustainnordic og Nordic Sustainable Construction (Norræna ráðherranefndin) stóðu saman að Norræna skálanum á arkitektaráðstefnunni UIA2023 sem fram fór 2.-6. júlí.
Norræni skálinn var tvískiptur, annars voru haldnar tvær sýningar á skjáum við skálinn og hinsvegar fóru fram samtöl, umræður og samtöl í þema ráðstefnunnar, að vinna að framtíð sem er bæði félagslega sjálfbær og umhverfislega endurnýjanleg.
Dagskráin í skálanum var sneisafull af spennandi erindum og umræðum allan daginn. Arkitektafélag Íslands og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs tóku virkan þátt í dagskránni og sérstaklega á miðvikudeginum, þegar skálinn var meira og minna undirlagður Íslendingum.
Tatiana Bilbao
Á haustmánuðum bauð Arkitektafélag Íslands Tatiönu Bilbao, margverðlaunuðum arkitekt frá Mexíkóborg að koma til Íslands. Tilefnið var 20 ára starfsafmæli arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands og fyrsta útskrift meistaranema í arkitektúr á Íslandi.
All mörg ár eru síðan Arkitektafélag Íslands hefur boðið erlendri stjörnu til landsins. Alls veittu 45 arkitektastofur styrki til verkefnisins og þökkum við þeim kærlega fyrir.
Tatiana Bilbao hefur rekið eigin stofu í Mexíkóborg, Tatiana Bilbao Estudio, frá árinu 2004. Verk þeirra spanna vítt svið og hafa vakið verðskuldaða athygli. Þau leggja jafnan áherslu á þverfaglega nálgun viðfangsefnis, þar sem manneskjan og hennar félagslegu þarfir eru í fyrirrúmi, með það að markmiði að skapa arkitektúr sem er virðisaukandi fyrir nærumhverfið. Þau eru þekkt fyrir að setja fram hugmyndir sínar í handgerðum teikningum og módelum fremur en í tölvugerðum þrívíddarmyndum.
Fundur með fulltrúum MoMA-The Emilio Ambasz Institute
Þriðjudaginn 11. október bauð Arkitektafélag Íslands og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fjölbreyttum hópi sérfræðinga um safnamál hér á landi til fundar með fulltrúum frá The Emilio Ambasz Institute-MoMA. Fulltrúar MoMA voru hér á landi í tilefni af The Third Ecology ráðstefnunni sem haldin var í samstarfi við LHÍ. Markmiðið með fundinum var að skapa samtal við hið opinbera um söfn og arkitektúr hér á landi en alls mættu rúmlega tuttugu manns á fundinn.
Þriðjudagsfyrirlestrar AÍ
Alls voru sex þriðjudagsfyrirlestrar haldnir á vegum Arkitektafélagsins.
Lífsferilsgreining (LCA) á Nýja Skerjafirði – Mikilvægi þess að íhuga efnisval í deiliskipulögum. Fyrirlesarar: Hjördís Sóley Sigurðardóttir og Björn Guðbrandsson.
Umhverfishönnun. Fyrirlesarar Marco Antonio Maycotte, arkitekt og Páll Jakob Líndal, umhverfissálfræðingur.
Arkitektúr og kennsla. Fyrirlesari Massimo Santanicchia, arkitekt og starfandi deildarforseti Hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ, sem hélt kynningu á doktorsverkefni sínu.
Kjarnasamfélög. Fyrirlesari: Charles Durrett arkitekt
Hönnunarhugbúnaðurinn Arkio. Fyrirlesari: Hilmar Gunnarsson.
Power. Fyrirlesari: Þýski arkitektinn, sýningarstjórinn, ritstjórinn og kennarinn Nikolaus Hirsch
Bóka-og aðventugleði Arkitektafélags Íslands haldin þar sem kynntar væru þrjár bækur um arkitektúr. Fyrirlesarar: Haraldur Sigurðsson, Ágústa Kristófersdóttir og Guðni Valberg.
Samkeppnir unnar í samstarfi við AÍ
Alls voru þrjár samkeppnir sem fóru fram á árinu. Þær eru:
Samkeppni um hönnun nýs Regluheimilis fyrir Oddfellowregluna á Úlfarsárholti.
Samkeppni um nýjan samþættan leik - og grunnskóla í Vogabyggð. Gögnum á að skila í janúar 2024.
Samkeppni um byggingu stúdentagarða fyrir Félagsstofnun stúdenta á Akureyri. Gögnum á að skila í janúar 2024.